Vill afnema sjálfkrafa skráningu barna í trúfélög

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur lagt fyrir Alþingi nýtt frumvarp …
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur lagt fyrir Alþingi nýtt frumvarp um að færa ákvörðun um félagsaðild ungbarna frá ríkisvaldinu til foreldra. Ljósmynd/Aðsend

„Frumvarpið snýst um prinsipp, eða grundvallarreglu um félagafrelsi sem er líka náskylt tjáningar- og skoðanafrelsi og á að vera svo heilagt að það sé algjörlega hafið yfir allan vafa. Þess vegna er það svo mikilvægt að það séu einstaklingarnir sjálfir sem stígi þessi skref en ekki að ríkisvaldið geri það fyrir þá,“ segir Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hún hefur lagt fram frumvarp um afnám sjálfkrafa skráningar barna í trú- og lífsskoðunarfélög.

Hildur segir það vera miklu eðlilegra að foreldrar sjái um það sjálfir að skrá sín börn í slík félög og taki þá meðvitaða ákvörðun um málið. Þá sé skráningin ákveðin aðgerð, og því eðlilegri heldur en að ríkisvaldið sé að vasast í að skrá ungabörn í trúfélög.

Ekki endilega tekjuskerðing

En telur Hildur að hún komi til með að mæta einhverri andspyrnu við frumvarpið?

„Ég held að það sé nú þannig að öll frumvörp á Alþingi fái einhvers konar athugasemdir og er það vel og gerir frumvarpið betra þegar upp er staðið. Ég get ímyndað mér að einhverjir hafi áhyggjur af því að skráningum fækki og þá sé kannski verið að horfa líka til teknanna. En lögum samkvæmt í dag er það ekki fyrr en við sextán ára aldur sem fjármagn fylgir viðkomandi einstaklingi til trúfélaga. Foreldrar og börn hafa því allan þann tíma til að taka ákvarðanir án þess að það valdi tekjutapi fyrir trúfélögin.“

Hildur segist alls ekki vera á móti trúfélögum, heldur sé þetta prinsippmál um félagafrelsi og að ríkisvaldið taki ekki ákvörðun í þessum viðkvæma málaflokki.

„Ég er sjálf í þjóðkirkjunni og finnst hún gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu en þetta frumvarp snýst um félagafrelsi.“

Hér er hægt að lesa frumvarpið.

mbl.is