Katrín fundar með Scholz í Berlín

Katrín Jakobsdóttir og Olaf Scholz.
Katrín Jakobsdóttir og Olaf Scholz. Samsett mynd/mbl.is og AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun funda með Olaf Scholz kanslara Þýskalands í húsnæði embættis kanslara í Berlín í dag.

Leiðtogarnir munu ræða tvíhliða samskipti ríkjanna tveggja; orkumál, efnahagsmál, öryggismál á Norðurslóðum auk stríðsins í Úkraínu. Þá mun formennska Íslands í Evrópuráðinu líklega bera á góma sem og leiðtogafundur Evrópuráðsins sem haldinn verður hér á landi í maí næstkomandi.

Í morgun heimsótti forsætisráðherra höfuðstöðvar íslenska leikjafyrirtækisins Klang Games og þá mun hún taka þátt í hádegisviðburði á vegum hugveitunnar Körber Stiftung þar sem fjallað verður um formennsku Íslands í Evrópuráðinu, mannréttindi, lýðræði, öryggismál í Evrópu og stríðið í Úkraínu.

mbl.is