Efling lýsir yfir vantrausti á ríkissáttasemjara

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og samninganefnd stéttarfélagsins.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og samninganefnd stéttarfélagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stjórn Eflingar fordæmir vinnubrögð ríkissáttasemjara í yfirstandandi kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins,“ segir í ályktun stjórnar Eflingar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, birti á Facebook rétt í þessu. 

Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í kjaradeilunni í dag sem bæði SA og Efling hafa gagnrýnt. Í ályktun Eflingar segir: „Með hliðsjón af ofangreindu lýsir stjórn Eflingar vantrausti á ríkissáttasemjara.“

Taki ekki tillit til aðstæðna

Ríkissáttasemjari hefur ekki sýnt minnsta áhuga á því að kynna sér, greina eða taka mark á vönduðum röksemdum samninganefndar Eflingar sem byggja á staðreyndum og gögnum um félagsmannahópinn og aðstæður hans,“ segir í ályktun stjórnarinnar. 

Þá segir að það sé algjör vanræksla af hálfu ríkissáttasemjara á því að hafa röksemdir samninganefndar Eflingar til nokkurrar hliðsjónar. 

Með miðlunartillögunni á að þröngva kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og SA upp á félagsfólk Eflingar, þrátt fyrir að samninganefnd Eflingar hafi ítrekað komið því með málefnalegum hætti á framfæri að sá samningur mætir ekki þörfum félagsfólks og tekur ekki tillit til aðstæðna þeirra.“

Fékk tillöguna klukkustund fyrir blaðamannafund

Í ályktuninni segir að afleiðingarnar yrðu að stórir hópar félagsfólks Eflingar fengju að meðaltali allt að 20 þúsund lægri hækkanir en félagsmenn SGS. 

Ríkissáttasemjari hefur gert grófa tilraun til að svipta Eflingu, stærsta félag verka- og láglaunafólks á Íslandi, sjálfstæðum samningsrétti sínum,“ segir í ályktuninni og telur stjórnin að miðlunartillagan sé ólögmæt. 

Þá segir að ríkissáttasemjari hafi ekki gert neina tilraun til að ræða tillöguna við formann Eflingar eða samninganefndina. 

Formanni Eflingar var einfaldlega afhent tillagan um það bil klukkutíma áður en ríkissáttasemjari hélt sérstakan blaðamannafund til að upplýsa um hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert