Fellt með helmingi greiddra atkvæða og 5.153

Félagsmenn í Eflingu í húsnæði ríkissáttasemjara.
Félagsmenn í Eflingu í húsnæði ríkissáttasemjara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til þess að fella miðlunartillöguna sem ríkissáttasemjari lagði fram í morgun í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins þarf meira en helmingur greiddra atkvæða að vera á móti henni. Einnig þurfa mótatkvæði að vera fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagsskrá.

Því þarf að lágmarki að uppfylla bæði skilyrðin og að minnsta kosti 5.153 að greiða atkvæði ef koma á til greina að fella tillöguna.

Þetta gildir jafnt um atkvæðagreiðslu á kjörfundi og póstatkvæðagreiðslu, að því er kemur fram í 31. grein laga ríkissáttasemjara. 

Ef velt er fyrir sér ákvæðinu um fjórðung atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagsskrá þá starfa 20.609 manns á kjarasamningi Eflingar. Því þurfa minnst 5.153 að greiða atkvæði gegn tillögunni til að fella hana. 

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari á blaðamannafundinum í morgun.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari á blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissáttasemjari sagðist á blaðamannafundi í morgun vonast til að atkvæðagreiðslan fari af stað í hádeginu á laugardag og standi til klukkan 17 á þriðjudag. Aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins greiða einnig atkvæði um tillöguna.

Fram kemur í lögum ríkissáttasemjara að sáttasemjarar geta borið fram miðlunartillögu eins oft og þeim þykir þurfa.

Listi Sólveigar fékk 2.042 atkvæði 

Kjörsókn í atkvæðagreiðslu Starfsgreinasambandsins vegna kjarasamnings við SA í desember var 16,56%. Já sögðu 85,71% en nei sögðu 11% og 3,29% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 23.711.

Verði kjörsókn hjá Eflingu nú svipuð og hjá Starfsgreinasambandinu myndu rúmlega 3.400 greiða atkvæði og til að ná helmingi þyrftu þá meira en 1.700 atkvæði að greiðast gegn miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Mótatkvæðin þurfa þó einnig að vera fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagsskrá, eða 5.153 eins og áður sagði. 

Þegar Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður Eflingar á ný í febrúar á síðasta ári greiddu 3.900 manns atkvæði (15,9%) og fékk listi hennar 2.042 atkvæði.

Uppfært kl. 15.15:

Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að til að fella miðlunartillögu ríkissáttasemjara þyrfti annað hvort að greiða helming greiddra atkvæða gegn henni eða ef mótatkvæði eru fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá. Hið rétta er að uppfylla þarf bæði skilyrðin, sem þýðir að bæði þarf meirihluta greiddra atkvæða gegn tillögunni og 5.153 atkvæði gegn henni til að fella hana.

mbl.is