Frábær flugbraut fyrir samstarf

Ólafur Darri Ólafsson vill nú framleiða sjónvarps- og kvikmyndaefni á Íslandi fyrir alþjóðamarkað, en hann stofnaði nýlega framleiðslufyrirtækið ACT4. Hann segist samt alls ekki hættur að leika. 

„Mér finnst það ennþá mjög skemmtilegt og ég hef verið það heppinn að ég nýt þess að vinna með frábæru fólki úti um allan heim. En þetta er góð flugbraut til þess að nýta mér þessi sambönd sem ég hef búið mér til erlendis í að hefja samstarf á annan hátt,“ segir Ólafur Darri sem hyggst fljótlega ljóstra því upp hvaða verkefni verða fyrst á dagskrá, en segir þar stór nöfn koma við sögu. Ólafur Darri segir nóg af verkefnum á teikniborðinu.  

„Það er mikið af góðum hugmyndum og sögum á floti í samfélaginu. Við þurfum að passa að fara ekki fram úr okkur. Við erum tilbúnir til að vera með svo lengi sem einhver brennur fyrir að segja söguna. Ég er sem leikari sögumaður í eðli mínu,“ segir hann og segir mikið átak að framleiða kvikmynd eða sjónvarpsþátt og oft sé ferlið tímafrekt. 

Ben Stiller elskar Ísland 

Ólafur Darri segir þá félaga sannarlega ætla að framleiða íslenskt efni þótt eins og fyrr segir langi hann mikið í samstarf við vini sína erlendis.  

„Ég hef mikið verið að vinna til að mynda með Ben Stiller. Hann elskar Ísland. Við erum íslenskt framleiðslufyrirætki og ætlum að nýta okkur okkar íslenska sagnaarf og það frábæra hæfileikafólk sem býr á Íslandi. En við ætlum ekki að stoppa þar, heldur langar okkur að verða stórir í hinum norræna hluta heimsins og framleiða efni fyrir alþjóðamarkað,“ segir hann og nefnir að endurgreiðsla ríkisins skipti miklu þegar framleiða á efni fyrir hvíta tjaldið og skjáinn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert