SA og Efling fyrir Félagsdóm á föstudag

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hákon

Samtök atvinnulífsins telja boðaða vinnustöðvun Eflingar ólögmæta enda hafi miðlunartillaga verið lögð fram af hálfu ríkissáttasemjara í kjaradeilu SA og Eflingar.

Þetta kemur fram í stefnu SA á hendur Alþýðusambandi Íslands vegna Eflingar sem birt hefur verið á heimasíðu SA.

Óheimilt að hefja vinnustöðvun

Þá segir í stefnu SA að samtökin telji óheimilt að boða og hrinda í framkvæmd vinnustöðvun á meðan miðlunartillaga er í kynningu og atkvæðagreiðslu auk þess sem Efling hafi með ólögmætum hætti hindrað að atkvæðagreiðsla geti farið fram um miðlunartillöguna. Þannig geti niðurstaða um atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna ekki legið fyrir innan þeirra tímamarka sem ákveðin höfðu verið af ríkissáttasemjara.

Samtök atvinnulífsins skoruðu í dag á Eflingu að fresta boðaðri vinnustöðvun til nánar tiltekins tíma, eins og heimilt er samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, og að hún myndi ekki koma til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi eftir að lögmætri atkvæðagreiðslu væri lokið um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Efling varð ekki við þeirri áskorun.

Því hafa Samtök atvinnulífins þingfest mál fyrir Félagsdómi til viðurkenningar á ólögmæti boðaðrar vinnustöðvunar.

Málflutningur er ráðgerður næstkomandi föstudag.

Í tilkynningu SA segir að samtökin skori á Eflingu að láta þegar af ólögmætum aðgerðum sem hindrað hafa lögbundinn rétt alls Eflingarfólks til að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara, sem sé lögum samkvæmt ígildi kjarasamnings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert