Gert að afhenda börnin erlendri móður

Íslenskum föður hefur verið gert að afhenda tvö börn sín til erlendrar móður þeirra sem er með lögheimili erlendis, samkvæmt nýlegum úrskurði Landsréttar.

Börnin eiga einnig lögheimili erlendis. 

Landsréttur staðfesti á dögunum úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. desember síðastliðinum í málinu.

Börnin komu hingað til lands í umgengni við föður 5. ágúst síðastliðinn og áttu þau að snúa aftur heim til móður sinnar einum mánuði síðar. Á grundvelli íslenskra barnaverndarlaga var úrskurðað að börnin skyldu vera hjá föður sínum á Íslandi í tvo mánuði til viðbótar til að tryggja hagsmuni þeirra.

Börnin verða tekin í febrúar

Móðir barnanna skaut úrskurðinum til héraðsdóms en hún hafði einnig krafist þess að börnin yrðu afhent á grundvelli Haag-samningsins. Héraðsdómur úrskurðaði henni í vil og nú hefur Landsréttur staðfest úrskurðinn.

Börn íslenska föðurins verða með beinni aðfarargerð tekin úr umráðum hans í þessum mánuði verði þeim ekki áður komið til móðurinnar.

mbl.is