Óvænt babb í bátinn þegar mbl.is opnaði

Vefurinn settur í loftið. Styrmir Gunnarsson hefur ýtt á takkann …
Vefurinn settur í loftið. Styrmir Gunnarsson hefur ýtt á takkann á tölvunni  og Hrafnkell Eiríksson, Margrét Sigurðardóttir og Andrés Magnússon klappa.

Það er óhætt að segja að spenna hafi verið í loftinu í húsi Morgunblaðsins í Kringlunni í Reykjavík að kvöldi sunnudagsins 1. febrúar 1998 þegar lögð var lokahönd á fréttavef, sem átti að opna á miðnætti aðfaranætur mánudagsins. Tímasetningin var ekki tilviljun, því þá kom blaðið ekki út á mánudögum.

Búið var að skrifa fréttir helg­arinnar og þær nýjustu voru allar tímasettar 2. febrúar kl. 00:00. Þar á meðal var frétt um vefinn sjálfan, frétt um prófkjör Reykjavíkurlistans, sem fór fram þá helgina, erlendar frettir og molar, sem nefndir voru veraldarfréttir og fjölluðu um sitthvað skrítið og skemmtilegt.

Fjöldi frétta sem birtist aldrei

Vefurinn hafði verið í undirbún­ingi um nokkra hríð. Hópur for­ritara hafði unnið hörðum höndum undanfarna mánuði við að tryggja virknina og þriggja manna ritstjórn hafði allan janúarmánuð skrifað fréttir til að sníða af vankanta og æfa handtökin, sem eðli málsins samkvæmt voru nokkuð ólík því sem tíðkaðist í fréttaskrifum fyrir dagblaðið. Það þurfti að skrifa fréttirnar hratt og birta þær jafn­óðum.

Janúar árið 1998 var nokkuð líflegur fréttamánuður; þá komust meðal annars samskipti Bills Clintons Bandaríkjaforseta og Monicu Lewinsky, lærlings í Hvíta húsinu, í hámæli og áttu eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Ritstjórn mbl.is skrifaði samviskusamlega margar fréttir um þessi mál – sem aldrei komu fyrir almenningssjónir.

Ýtt á takkann á miðnætti

Undir miðnættið kom Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, inn í tölvuherbergið og fékk það hlutverk að ýta á takkann, sem opnaði fyrir mbl.is. Það gerði hann stundvíslega um leið og 2. febrúar rann upp. Vefurinn birtist á tölvuskjánum og allir vörpuðu öndinni léttar.

En þá kom óvænt babb í bátinn. Í stað þess að fréttin um opnun mbl.is væri efst á síðunni, eins og undirbúið hafði verið, var þar erlend frétt með sömu tímasetningu, 00:00. Það varð svolítill handagangur í öskjunni á meðan tæknifólkið ráðgaðist um hvernig ætti að tryggja rétta röð á fréttunum en það mál leystist fljótt og vel.

Sjö þúsund notendur skráðir fyrsta sólarhringinn

Á þessum aldarfjórðungi, sem liðinn er frá því mbl.is var opnaður, hefur margt breyst. Nú er netið eðlilegur þáttur í daglegu lífi fólks en árið 1998 voru nettengingar ekki almennar sem sést á því, að fyrsta sólarhringinn eftir að mbl.is fór í loftið skoðuðu um sjö þúsund manns vefinn og þótti mikið.

Afmælisvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert