Þéttur pakki fram undan hjá Eflingu

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við drögum stjórnsýslukæruna til baka sökum viðbragðsleysis vinnumarkaðsráðherra,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar um stjórnsýslukæru Eflingar til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna kröfu þeirra um ógildingu miðlunartillögu ríkissáttasemjara í deilu félagsins við Samtök atvinnulífsins.

Ljóst að viðbrögð frá ráðherra yrðu ekki hröð

„Við förum þess í stað með kröfu á ógildinu miðlunartillögunnar fyrir dómsstóla,“ segir Sólveig og bætir við að flýtimeðferðar verði krafist. 

„Væntingar okkar voru þær að hann [Guðmundur Ingi Guðbrandsson, vinnumarkaðsráðherra] myndi, sökum stöðu sinnar og sökum alvarleika þessa máls, bregðast hratt við. Við teljum nú ljóst að svo verður ekki.“

Kæran verður lögð fram fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur síðar í dag. Á morgun fer svo fram málflutningur í innsetningarmáli ríkissáttasemjara gegn Eflingu í fyrir héraðsdómi annars vegar og í máli Samtaka atvinnulífsins um lögmæti boðaðra verkfallsaðgerða hins vegar fyrir Félagsdómi. 

Ljóst er að ef fallist verður á flýtimeðferð í kæru Eflingar sem lögð verður fram í dag, líði ekki um langt þar til málflutningur fer fram í því máli.

Sterkur málstaður gerir þetta auðveldara

Daníel Isebarn, lögmaður Eflingar, segir öflugan hóp vinna að málunum þremur. „Þetta hefst allt. Við erum með góðan málsstað og það auðveldar þetta.“

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður.
Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Daníel segist telja líklegt að flýtimeðferð verði samþykkt auk þess sem hann segist sannfærður um að miðlunartillaga ríkissáttasemjara verði dæmd ólögleg. 

Spurður hvort að hann byggi á að skort hafi samráð segir Daníel það rétt, meðal annars. 

„Það skorti á samráð í undirbúningnum, miðlunartillagan byggir á forsendum sem eru ólöglegar og síðast en ekki síst var eftirleikurinn ekki eftir lögum.“ Hann bendir á kynningu ríkissáttasemjara á miðlunartillögunni fyrir fjölmiðlum og segir kynninguna einhliða. Auk þess segir hann að samráð hafi skort við fyrirhugaða framkvæmd atkvæðagreiðslu um tillöguna.

mbl.is