Heimildir ríkissáttasemjara ekki óumdeildar

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands, segir ekki rétt að mat ríkissáttasemjara skuli eitt ráða því hvort miðlunartillögu megi leggja fram í skilningi laga um stéttarfélög- og vinnudeilur. Grein eftir Magnús birtist á vef ASÍ í dag.

Í greininni segir hann að ýmis skilyrði þurfi að uppfylla og að rökstyðja þurfi framlagningu slíkrar tillögu og síðast en ekki síst að velja rétta tímann til framlagningarinnar.

Báðir aðilar þurfa að gefa nokkuð eftir

Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ.
Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ. Ljósmynd/mbl.is

Magnús segir að uppástunga ríkissáttasemjara um lausn þurfi að vera með þeim hætti að báðir aðilar deilunnar gefi nokkuð eftir og hann segir að ríkissáttasemjari þurfi að telja tillögu sína líklega til sátta.

Hann vill meina að ef þessi skilyrði séu ekki uppfyllt beri ríkissáttasemjara að fara varlega með heimildir sínar og gæta þess að deilan sé, eins og hann orðar það, „nægilega þroskuð“ og að aðilum hafi tekist að þrýsta með raunverulegum hætti á kröfur sínar til dæmis með beitingu þvingunarúrræða á borð við vinnustöðvanir.

Þarf að þykja miðlunartillaga líkleg til sátta

„Upphaflegur tilgangur með heimildum sáttasemjara voru og eru enn, að hann hefur rétt til „ ...að bera fram uppástungur um ívilnanir af beggja hálfu, sem líklegar væru til að draga til sátta. Þyki honum líklegt til sátta, getur hann borið fram miðlunartillögu,..“ eins og það var orðað 1925.

Í gildandi lögum hefur orðalagið verið einfaldað en í 27.gr. segir nú: „Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur er honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu.“ Við allar lagabreytingar síðan 1925 þ.e. 1938, 1978 og 1996 kemur fram að engar efnisbreytingar sé verið að gera á þessari miðlunarheimild sáttasemjara sem reyndar sé nokkuð rúm og sjaldan notuð.“

Má ekki takmarka löglega heimild

Magnús segir í grein sinni á ríkissáttasemjara sé ekki heimilt að beita miðlunarheimildum sínum til að takmarka löglega heimild stéttarfélaga til að þrýsta á um kröfur sínar með boðun vinnustöðvunar.

Geri hann slíkt fari hann gegn grundvallarmannréttindum frjálsra stéttarfélaga. Segir hann slíkt augljóslega eiga við þegar sú staða sé uppi að ekki hafi verið greidd atkvæði um tillögu að vinnustöðvun og því óvíst hvort að henni komi.

Þannig segir Magnús heimildir ríkissáttasemjara hvorki einfaldar né óumdeildar. 

Tvö dómsmál

Efling höfðaði mál gegn ríkissáttasemjara til þess að freista þess að fá miðlunartillögu ríkissáttasmjara dæmda ólögmæta. Þá höfðaði ríkissáttasemjari innsetningarmál gegn ASÍ og SGS vegna Eflingar til þess að kjörskrá Eflingar yrði afhent eða gerð aðgengileg.

Vænta má niðurstöðu í innsetningarmáli ríkissáttasemjara í dag en einhverju síðar í máli Eflingar gegn ríkissáttasemjara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert