Lilja gerir ráð fyrir áfrýjun

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/​Hari

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, gerir ráð fyrir því að dómi héraðsdóms um bankinn hafi ofreiknað vexti af lánum verði áfrýjað.

Hún segir bankann vera að meta dóminn. „Gera má ráð fyrir því að dómnum verði áfrýjað, annað hvort af Neytendasamtökunum eða Landsbankanum," segir Lilja og bætir við.

„Ef að lokaniðurstaðan er sú að viðskiptavinir eiga rétt á greiðslum vegna óljósra vaxtaskilmála þá er ljóst að við munum eiga frumkvæðið af því að endurgreiða viðskiptavinum,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

Lánin sem um ræðir voru öll veitt á skilmálum sem voru til staðar fyrir 2013. Ný lög og nýir skilmálar hafa verið á lánum síðustu ára að sögn Lilju. Hins vegar segir í dómi að bankanum sé eingöngu gert að endurgreiða þá vexti sem söfnuðust upp á árunum 2017-2021. Eldri kröfur væru hins vegar fyrndar. 

„Er bankanum stætt á að breyta vöxtum á þessum lánum í ljósi niðurstöðu dómsins?"  

„Það er ótímabært að draga stórar ályktanir á þessum tímapunkti í ljósi þess hve nýlega dómurinn féll og enn eru álitmál sem eftir á að leiða til lykta við áfrýjun,“ segir Lilja.  

Um 200 milljónir króna 

Hún segir að ekki liggi fyrir til hversu margra lántakenda dómurinn taki. Bankinn hafi verið búinn að áætla að upphæðirnar sem um ræðir væru um 200 milljónir króna áður en dómur féll. Hún segir þó að fara verði yfir dóminn áður en slíkar tölur liggja nákvæmlega fyrir.

„Við þurfum að fara nákvæmar í þá vinnu að meta hversu há upphæð er undir en gerum ráð fyrir því að það sé nærri þessari tölu,“ segir Lilja.

Ekki liggur fyrir til hversu margra viðskiptavina bankans dómurinn nær.
Ekki liggur fyrir til hversu margra viðskiptavina bankans dómurinn nær. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is