Landsbanka gert að endurgreiða ofgreidda vexti

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sem standa fyrir málinu.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sem standa fyrir málinu. Samsett mynd

Héraðsdómur hefur dæmt Landsbanka til þess endurgreiða tveimur lántakendum ofgreidda vexti vegna láns með breytilegum vöxtum, þar sem skilmáli bankans var talinn ósamrýmanlegur lögum um neytandalán.

Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður beggja stefnenda, segir dóminn hafa mikla þýðingu en reiknar sterklega með því að honum verði áfrýjað. 

Skilmáli sem deilt var um í málinu var dæmdur ólögmætur og ógildur og var því slegið föstu að bankinn hafi ekki getað breytt vöxtum á grundvelli hans, að sögn Ingva. Ofgreiddu vextirnir námu 124.229 krónum hjá öðrum lántakanda málsins en 108.711 krónum hjá hinum. Málið er eitt þeirra sem Neytendasamtökin standa fyrir.

Fá endurgreitt fyrir síðastliðin 4 ár

„Dómurinn byggist á því að skilmáli Landsbankans, sem um var fjallað í málinu hafi ekki skýrt með nægilega skýrum og greinargóðum hætti, hvað vaxtabreytingar lánanna ættu að miðast við,“ segir Ingvi.

Deilt var um skuldabréfalán sem tekið var árið 2006 en bankanum var gert að endurgreiða ofgreidda vexti fyrir tímabilið 8. desember 2017 til 8. desember 2021. Málið var höfðað þann 8. desember 2021 en kröfur sem ná lengra en fjögur ár aftur í tímann, miðað við þá dagsetningu, taldi dómurinn fyrndar samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, ásamt Ingva Hrafni Óskarssyni, lögmanni tveggja …
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, ásamt Ingva Hrafni Óskarssyni, lögmanni tveggja skjólstæðinga í málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þýðingarmikill dómur“

Dómurinn komst að því að skilmálinn hafi í reynd veitt bankanum einhliða heimild til þess að breyta vöxtunum eftir eigin höfði og var því skilmálanum vikið til hliðar.

Spurður hvort málið gæti einnig haft fordæmisgildi fyrir þá sem tekið hafa fasteignalán svarar Ingvi játandi, dómurinn er ákveðinn á forsendum sem eiga við um öll neytendalán sem bera breytilega vexti.

„Ef við lítum til áhrifanna á þessu þá er þetta þýðingarmikill dómur að því leytinu til að grundvallaratriði í okkar málflutningi í málinu eru staðfest, þ.e. að skilmálar um breytilega vexti þurfi að útskýra á mannamáli hvernig breytingar eru á vöxtunum ákveðnar. Ef það er ekki gert getur það leitt tiltil þess að fjármálafyrirtæki þurfi að endurgreiða oftekna vexti,“ segir Ingvi.

Málið hafi verulega þýðingu þar sem staðfest er að óskýrleiki skilmála um breytilega vexti getur leitt til þess að slík ákvæði verði vikið til hliðar og lánastofnun gert að endurgreiða ofgreidda vexti.

„Dómsmálið hefur einnig beina þýðingu fyrir skilmála sem eru sambærilegir og áþekkir þeim skilmála Landsbankans sem deilt var um í málinu, en fyrst og fremst er um að ræða lán sem ekki er nýleg því Landsbankanum hefur breytt stöðluðum skilmálum sínum um breytilega vexti.“

Telur að neytendur eigi betri rétt

Fallist var á endurreikninga sem bankinn lagði sjálfur fram í málinu en Ingvi telur að neytendur eigi betri rétt en þann sem dómurinn sló föstum.

„Ágreiningur er um hvernig beri að reikna endurgreiðslur út. Við teljum að neytendur eigi betri rétt við þessar aðstæður, en dómurinn leggur upp með. Rétturinn gerir tvennt – hann breytir inntaki samningsins með því að festa upphaflega vexti lánanna og fella úr gildi allar breytingar sem voru gerðar á vöxtunum,“ segir Ingvi og heldur áfram:

„Hins vegar lítur hann svo á að allar ofgreiðslur sem áttu sér stað 4 árum fyrir höfðun málsins séu fyrndar. Sem gerir að verkum að fjárhæðin til endurgreiðslu er umtalsvert lægri en annars hefði verið.“ Á þeim grundvelli hafi verið miðað við endurútreikninga sem bankinn lagði fram sjálfur í málinu.

Arion banki var þá í dag sýknaður af kröfum tveggja lántakenda, sem kröfðust þess að fá endurgreidda ofgreidda lánavexti. Taldi héraðsdómur þrátt fyrir að skilmáli Arion banka hafi ekki verið til þess fallinn að varpa skýru ljósi á það hvers vegna vextir tækju breytingum, en hins vegar bæri að líta til þess að lög gerðu ekki kröfu um að í skuldabréfi „þurfi að kveða á um útfærslu á forsendum breytinga út í hörgul“, eins og segir í dómnum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK