Leiguverð í hæstu hæðum

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gerir leiguverð að umræðuefni.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gerir leiguverð að umræðuefni.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stöðuna á húsnæðismarkaði fara versnandi og bendir á auglýsingu af fasteignavef mbl.is þar sem leiguverð á þriggja herbergja íbúð eru 375.000 krónur á mánuði.

Hann bendir á að leiguverðið sé talsvert yfir lægstu launatöxtum, sem voru fyrir skatt 367.000 krónur, fyrir hækkanir síðustu kjarasamninga. Sambærileg íbúð við Tangabryggju á vegum íbúðafélagsins Bjargs er á 166.475 kr. og frá því dragast húsaleigubætur.

Það er ekki auðsótt að fá íbúð hjá Bjargi og er biðlistinn langur. Í athugasemdum bendir einn aðili á að biðlistinn eftir íbúð sé afar langur þar sem yfir tvö þúsund manns ganga fyrir.

„Aldrei heyrt neitt frá þessu leigufélagi frá því ég sótti um þar. Geturðu bent mér á annað félag félagi Ragnar því mér mun líklega ekki endast ævin í bið þarna?“

Húsnæðismarkaðurinn botnfrosinn

Ragnar segir stöðuna á húsnæðismarkaðnum fara versnandi og ef áfram haldi stefni þetta í óefni. Árum saman hafi þau reynt að koma stjórnvöldum í skilning um stöðuna en einungis fengið starfshóp eftir starfshóp og nefnd eftir nefnd en engar aðgerðir eða efndir.

„Staðan í dag er að húsnæðismarkaðurinn er botn frosinn. Framkvæmdir dragast saman og stefnir í algjört óefni. Hátt vaxtastig og aðgerðir Seðlabankans hafa þannig lokað á eftirspurnarhliðina, og framboðshliðin er að lokast líka.

Á meðan hefur ríkisstjórnin mestar áhyggjur af stöðunni á vinnumarkaði og hvernig helst sé hægt að beisla hann með lögum. Og hvernig kjarasamningar, en þar hækkuðu laun um 35.000 til 66.000 kr. á mánuði, séu nú helsta ógnin við stöðugleika,“ segir Ragnar á facebook-síðu sinni.

mbl.is