Vonast til þess að framkvæmdir hefjist í vor

Hörður vonast til þess að undirbúningsframkvæmdir fyrir Hvammsvirkjun geti hafist …
Hörður vonast til þess að undirbúningsframkvæmdir fyrir Hvammsvirkjun geti hafist með vorinu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, vonast til þess að framkvæmdir við Hvammsvirkjun muni hefjast í vor. Á teikniborðinu eru fjórar framkvæmdir sem áætlað er að gefi 1,5-2 TW af orku. „Við vonumst til að komast af stað með framkvæmdir á Hvammsvirkjun með vorinu,“ segir Hörður. Málið hefur verið til umfjöllunar hjá Skeiða- og Gnúpverjahreppi.  

Huga verði strax að næstu verkefnum 

Fram kom í málið Harðar að markmiðið til ársins 2027 er uppbygging virkjana við Búrfellslund, Þeystarreyki, Hvamm auk stækkunar Sigöldu. Hins vegar þurfi stefnumörkun um framtíðina. Taka verði ákvörðun sem allra fyrst um virkjanir sem eiga að vera tilbúnar árið 2035. Reynslan sýni að það taki 10-15 ár með undirbúningsvinnu að koma virkjunum í gagnið. Þannig hafi vinna við Hvammsvirkjun hafist fyrir 30 árum svo dæmi sé nefnt.

„Við gerum ráð fyrir því að þurfa að fara strax í næstu verkefni. Eftirspurnin er það mikil. Við þurfum að fara að fá það skýrt í rammaáætlun hvað taki við,“ segir Hörður. 

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi Landsvirkjunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafa þurft að hafna fjölda verkefna 

Fram kom í máli Jónasar Þórs Guðmundsonar, stjórnarformanns Landsvirkjunar, að Landsvirkjun hafi þurft að hafna umhverfisvænum verkefnum vegna skorts á raforku undanfarin ár. 

„Við höfum verið í viðræðum við fjölda aðila. Oftar eru þetta erlendir fjárfestar. Þetta eru gagnaver og matvælaframleiðsla svo dæmi sé nefnt. Ef raforkan verður til staðar verður þetta skoðað á viðskiptalegum forsendum. Það eru þrír megin flokkar í forgangi. Að styðja við vöxt hagkerfisins og orkuskipti í samræmi við loftlagsmarkmið, styðja við grænan iðnað á borð við matvælaframleiðslu og gagnaver og að styðja við núverandi viðskiptavini,“ segir Hörður. Nefnir hann dæmi um nýja steypuskála Rio Tinto og Norðuráls í þessu samhengi.

mbl.is