Áttavilltur ferðamaður í garðinum

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 220 í Hafnarfirði þegar grímuklædd manneskja var að sniglast í garðinum hjá þeim sem tilkynnti um málið.

Manneskjan flúði af vettvangi þegar hún varð vör við öryggismyndavél í garðinum.

Lögreglan fór á staðinn og ræddi við manneskjuna, sem reyndist vera erlendur og áttavilltur ferðamaður í leit að AirBnB-íbúð sinni sem hann hafði tekið á leigu, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglunni barst tilkynning um eld frá veitingastað í hverfi 201 í Kópavogi. Í ljós kom að veitingastaðurinn er búinn ofni sem er kyntur með viðarbrennslu. Það útskýrði brunalyktina og eldglærurnar sem bárust upp úr strompi veitingastaðarins.

Tilkynnt var um líkamsárás í hverfi 111 í Breiðholti þar sem árásarþoli var laminn með gerefti. Lögreglan fór á vettvang og handtók þann sem réðst á hann og kærði fyrir eignaspjöll og meiriháttar líkamsárás.

Reyndi að hlaupa undan lögreglu

Lögreglan gaf ökumanni bifreiðar merki um að stöðva akstur í Grafarholti en í staðinn fyrir að stöðva gaf ökumaðurinn í, lagði bifreiðinni síðan stæði og reyndi að hlaupa undan lögreglunni. Lögreglumenn hlupu ökumanninn uppi og var hann handtekinn í anddyri fjölbýlishúss.

Ökumaðurinn bar þess merki að vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var hann færður í handjárn og honum fylgt í lögreglubifreið. Að sýnatöku lokinni var ökumaðurinn frjáls ferða sinna, en hann reyndist einnig vera réttindalaus.

Klifraði yfir svalahandrið

Lögreglunni á Vínlandsleið var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir þar sem klifrað var yfir svalahandrið sem tilheyrir séreign í fjölbýlishúsi. Sá sem tilkynnti um málið var ekki með augu á vettvangi, að því er kemur fram í bókun. Lögreglan fór á staðinn og ræddi við húsráðanda íbúðarinnar. Í ljós kom að húsráðandinn hafði sem betur fer bara gleymt lyklunum sínum og ákveðið að vippa sér yfir svalahandriðið og fara inn um svalahurð.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Með hnúajárn

Ökumaður var stöðvaður í hverfi 112 í Grafarvogi, grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en grunur var staðfestur með munnvatnssýnaprófi. Ökumaðurinn var handtekinn en í öryggisleit fannst hnúajárn á honum. Ökumaðurinn var fluttur á lögreglustöð þar sem hjúkrunarfræðingur dró úr honum blóð. Hnúajárnið, sem ökumaðurinn sagðist eiga, var haldlagt. Að sýnatöku lokinni var hann látinn laus úr haldi lögreglu.

mbl.is