Neysla eykst á nikótínpúðum, orkudrykkjum og rafrettum

33% fólks á aldrinum 18-29 segist nota nikótínpúða daglega samkvæmt …
33% fólks á aldrinum 18-29 segist nota nikótínpúða daglega samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrefalt fleiri Íslendingar nota nú nikótínpúða daglega heldur en fyrir þremur árum, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Samtímis hefur neysla orkudrykkja aukist mikið.

Í febrúar árið 2020 kom fram í þjóðarpúlsi Gallup að um 4% svarenda neyttu nikótínpúða daglega og 9% reyktu sígarettu daglega. Í dag er staðan önnur þar sem 12% svarenda segjast neyta nikótínpúða daglega en aðeins 5% reykja.

Þá segjast tvöfalt fleiri nota rafsígarettur daglega heldur en fyrir þremur árum, en hlutfallið hefur hækkað úr 2% frá árinu 2020 yfir í 4%.

Ungt fólk alfarið farið í nikótínpúða

Enginn undir þrítugu sagðist reykja sígarettur reglulega eða dagleg en hins vegar sögðu 33% svarenda á aldrinum 18-29 ára að þau tækju í vörina á hverjum degi en árið 2020 var hlutfallið 10%. Í ár sögðust 21% svarenda á aldrinum 30-39 taka í vörina daglega.

Nikótínpúðar hafa leyst af hólmi neftóbakið að miklu leyti. Oft …
Nikótínpúðar hafa leyst af hólmi neftóbakið að miklu leyti. Oft er nikótíninnihaldið í púðunum mun meira en í öðrum tóbaksvörum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

7-8% svarenda yfir fimmtugt sögðust reykja á hverjum degi.

Þá er fólk með meiri menntun og fólk með hærri fjölskyldutekjur ólíklegra til þess að reykja daglega.

Um 7% svarenda af landsbyggðinni sögðust reykja en aðeins 4% af höfuðborgarsvæðinu.

Orkudrykkir vinsælastir meðal 30-39 ára

Um 9% svarenda sögðust neyta orkudrykkja daglega en árið 2020 var hlutfallið 4%.

Neysla á orkudrykkjum meðal fólks á aldrinum 30-39 ára er sú hæsta meðal allra aldurshópa, þar sem 21% sagðist neyta þeirra daglega en þar að auki sögðust 42% neyta þeirra annað hvort við og við eða reglulega.

Til samanburðar voru 14% svarenda á aldrinum 18-29 ára sem sögðust neyta orkudrykkja daglega en 46% sem sögðust neyta þeirra reglulega eða endrum og eins.

Þau sem hafa yfir 800.000 krónur í fjölskyldutekjur voru einnig líklegri til þess að neyta orkudrykkja.

Flokkur fólksins reykir en Píratar veipa

Svarendur voru einnig spurðir að því hvaða flokk þau myndu kjósa ef kosningar væru í dag.

15% þeirra sem sögðust kjósa flokk fólksins sögðust reykja daglega og 14% sögðust hafa annað hvort reykt reglulega eða endrum og eins. Kjósendur Viðreisnar eru ólíklegastir til þess að reykja og þar á eftir koma kjósendur Pírata.

Kjósendur Pírata eru líklegastir til þess að nota rafsígarettur daglega þar sem 8% sögðust nota rafrettur daglega og um önnur 8% sögðust nota rafsígarettur reglulega eða endrum og eins. Kjósendur Flokks fólksins komu þar á eftir en kjósendur Vinstri grænna og Miðflokksins voru ólíklegastir.

Smáar einnota rafsígarettur eru orðnar afar algengar hér á landi.
Smáar einnota rafsígarettur eru orðnar afar algengar hér á landi. AFP

Kjósendur Framsóknarflokksins voru ólíklegastir til þess að neyta nikótínpúða, enda sá flokkur sem lagði fram tillögu um bann á ýmsum bragðtegundum nikótínpúða. Þar á eftir voru það kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.

Sá hópur sem sagðist oftast nota nikótínpúða daglega var hins ekki flokksbundinn heldur voru það þau sem sögðust myndu skila auðu (eða ekki kjósa yfir höfuð) sem svöruðu að þau notuðu nikótínpúða daglega.

Þar á eftir voru það kjósendur Viðreisnar og Sósíalistaflokks Íslands sem deildu öðru sætinu, þar sem 21% af kjósendum beggja flokka sem svöruðu sögðust nota nikikótínpúða á hverjum degi.

mbl.is