Skólinn á ekki að reka réttarkerfi

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, ræddi við mbl.is um …
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, ræddi við mbl.is um stöðuna í skólum landsins.

Kynbundið ofbeldi meðal ungmenna var til talsverðrar umræðu í fyrra og gengu nemendur út úr tímum til að sýna samstöðu með brotaþolum og mótmæla viðbragðsleysi skólayfirvalda við ásökunum um kynferðisbrot meðal nemenda. 

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, segir marga skóla upplifa ráðaleysi varðandi viðbrögð við jafningjaofbeldismálum, en málefnið er eitt þeirra sem tekið er fyrir á ráðstefnu um kynbundið ofbeldi og ábyrgð skóla, sem Stígamót standa fyrir í dag.

Steinunn segir að helsta markmið ráðstefnunnar sé að valdefla skólaaðila til að bregðast við kynbundu ofbeldi, bæði sem forvarnar- og viðbragðsaðilar.

Hún segir að Stígamót hafi fundið fyrir ákveðnu ráðaleysi af hálfu skólastjórnenda varðandi viðbrögð við jafningjaofbeldismálum. Skólarnir bregðist oftast við eftir bestu getu en að viðbrögðin séu í mörgum tilfellum ekki brotaþolavæn.

Margir nemendur MH kváðust hafa fengið nóg af aðgerðaleysi skólayfirvalda …
Margir nemendur MH kváðust hafa fengið nóg af aðgerðaleysi skólayfirvalda í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þurfa að passa að brotaþoli detti ekki úr skóla

Hún segir ráðstefnuna ekki veita skólaaðilum viðbragðsáætlunar gátlista, enda sé það einfaldlega ekki hægt, heldur dýpka þekkingu og efla skólaaðila til að treysta eigin dómgreind varðandi viðbragðsáætlanir í flóknum málum.

Meðal annars er fjallað um netúrræðið „Sjúkt spjall“, þar sem ungmenni geta nafnlaust rætt við ráðgjafa um reynslu og spurningar um ofbeldi.  

Sjálf er Steinunn með ávarpið „Á skólinn að reka réttarkerfi?“. Hún segir marga skóla gera ráð fyrir því að brotaþoli tilkynni brot til skólayfirvalda, málið sé síðan kannað og gripið til aðgerða í kjölfarið.

Steinunn segir það hins vegar alls ekki hlutverk skóla að reka eigið réttarkerfi og kveða upp dóm yfir nemendum. Hlutverk skólans sé fyrst og fremst að græða sár og passa að brotaþoli detti ekki úr skóla í kjölfar brotsins, heldur geti lifað sínu lífi innan veggja skólans án þess að endurupplifa áföll.  

Starfsmönnum þyki oft vænt um báða nemendur

Hún segir mikilvægt fyrir starfsmenn skólans að gera sér grein fyrir því að þeir séu ekki hlutlausir aðilar, heldur hafi oft tilfinningar varðandi málin.

„Þeim þykir sennilegast vænt um báða nemendur í málum þar sem nemandi hefur brotið á samnemanda. Það er fyrsta skref að gera sér grein fyrir því og hvernig það getur flækst fyrir manni þegar unnið er úr svona málum.“ 

Einnig segir hún mikilvægt að vera vakandi fyrir því að þrátt fyrir að mál sem þessi séu yfirleitt meðhöndluð sem einkamál nemendanna sem eiga í hlut, sé oft stór hópur samnemanda sem blandast inn í málið. Skólinn þurfi að grípa inn í slíkum tilfellum, með fræðslu og samtölum við nemendur. 

Munur á afleiðingu og refsingu

Spurð hvað sé ráðlagt varðandi afleiðingar fyrir gerendur segir Steinunn mikilvægt að skilgreina á milli refsingu og afleiðinga.

„Það er alveg mjög eðlileg afleiðing ef þú hefur brotið á annarri manneskju, þannig að manneskjan upplifir vanlíðan við að vera nálægt þér, að þú þurfir að víkja. Það er ekki refsing fyrir brotið, það er bara það sem þarf að gera til að hin manneskjan geti haldið áfram að lifa sínu lífi.“

Hún segir skólayfirvöld reyna að taka sem varkárast á málum sem snúast að ungmennum. Hún tekur sem dæmi um afleiðingu að gerandi þurfi að hætta í kór eða nemendastjórn eða ekki fá að mæta í bekkjarferð sem brotaþoli er partur af.

Hún segir þó ráðstefnuna ekki ætlaða til að ráðleggja nákvæmlega hvaða aðferðum eigi að beita heldur fyrst og fremst að dýpka þekkingu skólafólks til að meta stöðuna og beita góðri dómgreind í þessum erfiðu málum. 

Dagskrá og erindi ráðstefnunnar má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert