Hleypti af skoti inni á Dubliner

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til á Tryggvagötu fyrr í kvöld.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til á Tryggvagötu fyrr í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður hleypti af skoti inni á skemmtistaðnum Dubliner við Naustin í miðborg Reykjavíkur, að því er lögreglu var tilkynnt um rétt upp úr klukkan sjö í kvöld. Skotið hafnaði á vegg við barinn og flúði skotmaðurinn vettvang í kjölfarið.

Lögregla brást skjótt við, vopnaðist og leitar nú skotmannsins. Biður hún viðkomandi að gefa sig fram, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla sendi mikið lið á vettvang ásamt sérsveit og voru sjúkraflutningamenn kallaðir til.

Fundu skotvopn nærri vettvangi

Enginn særðist alvarlega í árásinni en tveir gestir staðarins fengu aðhlynningu, annar var með skrámu á höfði og hinn aðilinn hafði áhyggjur af heyrn sinni.

Stuttu seinna fundu lögreglumenn skotvopn nærri vettvangi. Lögreglan leitar nú skotmannsins og hvetur viðkomandi til þess að gefa sig fram. 

Lögreglan mun ekki veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Gunnar Hörður Garðarsson, upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra, staðfesti fyrr í kvöld við mbl.is að sérsveit ríkislögreglustjóra hefði verið kölluð á Tryggvagötu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is