Kynna fjórar leiðir til að laga leikskólavandann

Áhyggju­full­ir for­eldr­ar mót­mæltu úrræðaleysi í leik­skóla­mál­um í Reykja­vík fyr­ir fund …
Áhyggju­full­ir for­eldr­ar mót­mæltu úrræðaleysi í leik­skóla­mál­um í Reykja­vík fyr­ir fund borg­ar­ráðs í morg­un. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins mun leggja til fjórar leiðir til að bregðast við leikskólavandanum í Reykjavík á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn.

Tillögurnar snúa að því að efla dagforeldrakerfið, hefja samningaviðræður við sjálfstætt starfandi leikskóla um að fjölga leikskólaplássum, samþykkja heimgreiðslur til foreldra biðlistabarna og að koma á laggirnar fimm ára deildum í grunnskólum.

„Við verðum að leysa þennan vanda saman. Það er neyðarástand og það verður að bregðast við því, hvort sem að við erum í meirihluta eða minnihluta í borginni,“ segir Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi í samtali við mbl.is, en hún mun flytja tillögurnar fyrir hönd sjálfstæðismanna á borgarstjórnarfundi.

Marta Guðjónsdóttir mun flytja tillögurnar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Marta Guðjónsdóttir mun flytja tillögurnar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta snertir bæði barnafjölskyldur og atvinnulífið. Foreldrar sem hafa börn á löngum biðlistum komast ekki út á vinnumarkað eftir að fæðingarorlofi lýkur, og verða þannig fyrir tekjumissi, og atvinnurekendur fá ekki starfskrafta aftur til starfa. Þetta er framlag okkar sjálfstæðismanna til að bregðast við þessum vanda,“ bætir Marta við.

Hún vonast til að borgarstjórn taki vel í tillögurnar.

„Ég vona að undirtektirnar verði góðar og að það verði tekið jákvætt í tillögurnar.“

Borgin útvegi leiguhúsnæði

Fyrsta tillaga Sjálfstæðisflokksins snýr að því að hrint verði í framkvæmd stefnu í málefnum dagforeldra sem reist verði á tillögum skýrslunnar Endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu Reykjavíkurborgar sem kom út vorið 2018.

Skýrslan var unnin af starfshópi á vegum Reykjavíkurborgar.

„Þessi fyrsti liður tillögunnar felur hins vegar í sér að borgarstjórn taki af skarið og hrindi í framkvæmd nauðsynlegum umbótum til að dagforeldrakerfið geti eflst og stækkað, svo sem með því að Reykjavíkurborg útvegi leiguhúsnæði svo að dagforeldrar eigi auðveldara með að starfa tveir saman, niðurgreiðslur til dagforeldra hækki verulega, aðstöðu- og stofnstyrkir verði hækkaðir og aukinn verður faglegur stuðningur við dagforeldra,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Um 30 foreldrar mættu á mótmælin í morgun.
Um 30 foreldrar mættu á mótmælin í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfstætt starfandi leikskólar fái Ævintýraborgir

Í öðru lagi leggur flokkurinn til að borgin fari í samningaviðræður við sjálfstætt starfandi leikskóla um að fjölga leikskólaplássum, til dæmis með því að styðja þá sem hafa hug á að koma upp færanlegum kennslustofum, Ævintýraborgum, á lóðum sínum.

„Reykjavíkurborg styðji þá sjálfstætt starfandi leikskóla sem hafa hug á og getu til að koma upp færanlegum kennslustofum á lóðum sínum. Jafnframt standi sjálfstætt starfandi skólum til boða laust húsnæði í eigu Reykjavíkurborgar ef þeir hafa áhuga á að opna útibú sinna skóla. Þessir kostir verði liður í að fjölga plássum hratt og örugglega á meðan neyðin gengur yfir,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Meðal þeirra sem ræddu við foreldrana í Ráðhúsinu voru Marta …
Meðal þeirra sem ræddu við foreldrana í Ráðhúsinu voru Marta og flokkssystkini hennar Helgi Ás Grétarsson og Hildur Björnsdóttir. Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar spjallaði sömuleiðis við viðstadda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gefast ekki upp á heimgreiðslunum

Í þriðja lagi er lagt til að heimgreiðslur verði samþykktar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður lagt þetta til en borgarstjórn hefur ekki samþykkt tillöguna. 

„Þetta úrræði fæli í sér að foreldrar barna 12 mánaða og eldri sem ekki hafa fengið leikskólavist gætu sótt um heimgreiðslur þangað til börnin fái pláss á leikskóla. Úrræðið hefur gefist vel í þeim nágrannasveitarfélögum sem hafa boðið upp á heimgreiðslur. Slíkt úrræði yrði liður í fjölbreyttum lausnum við þeim mikla vanda sem leikskólinn er kominn í,“ segir í greinargerðinni.

Ein­ar Þor­steins­son, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar­flokks­ins og formaður borg­ar­ráðs, hefur áður sagt snúið mál að greiða heimgreiðslur.

Tilraunaverkefni þar sem vandinn er mestur

Í fjórða lagi leggja sjálfstæðismenn til að farið verði í tilraunaverkefni í þeim hverfum þar sem leikskólavandinn er mestur. Verkefnið felur í sér að komið verði á laggirnar fimm ára deildum í grunnskóla þar sem kennsla fer fram á forsendum leik- og grunnskólans. 

„Námið yrði á forsendum leik- og grunnskólans þar sem kennt yrði í gegnum leik. Grunnþættir menntunar eru þeir sömu í aðalnámskrá grunn- og leikskóla og eiga að fléttast inn í allt nám nemenda. Fimm ára bekkur í grunnskóla tæki þannig mið af blönduðu kerfi þar sem stuðst yrði við kennsluaðferðir beggja skólastiga,“ segir í greinargerðinni.

Tekið er fram að nauðsynlegt sé að vinna við þennan valkost hefjist sem fyrst þannig að hægt verði að bjóða upp á þennan kost frá og með komandi hausti, til að fjölga plássum og stytta biðlista. 

Aðgerðahópur verði stofnaður

Í því skyni að hægt verði að koma tillögunum í verk er lagt til að stofnaður verði fimm manna aðgerðahópur þar sem fulltrúar dagforeldra og sjálfstætt starfandi skóla eiga sæti.

Hinir þrír fulltrúar hópsins verði einstaklingar innan og utan stjórnkerfisins sem hafa fagþekkingu á sviði áætlanagerðar, samningagerðar, fjármála og leikskólamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert