Heimgreiðslur til foreldra snúið mál

„Það þarf að nýta fjármagnið sem best til að auka …
„Það þarf að nýta fjármagnið sem best til að auka úrræðin. Það eru víða biðlistar í borginni,“ segir Einar í samtali við mbl.is. mbl.is/Hákon

Ein­ar Þor­steins­son, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar­flokks­ins og formaður borg­ar­ráðs, segir snúið mál að greiða foreldrum sem eru með börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík biðlistabætur. Hann segir þurfa nýta fjármagn borgarinnar vel og bendir á lagalegt álitamál tengt biðlistabótum til foreldra.

Í dag kynnti meirihluti borg­ar­ráðs sex tillögur um lausnir á leikskólavandanum. Biðlistabætur eru ekki meðal tillagnanna. 

Krist­ín Tóm­as­dótt­ir, fjög­urra barna móðir og fjöl­skyldumeðferðarfræðing­ur sem hef­ur staðið fyr­ir mót­mæl­um vegna leik­skóla­vand­ans í Reykja­vík­ur­borg, tók til máls eftir að búið að var að kynna tillögurnar. Kallaði hún eftir því að borgin myndi greiða foreldrum biðlistabætur þar sem margir hefðu þurft að hætta vinnu.

Á fundi borgarráðs þann 11. ágúst lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að for­eldr­ar þeirra barna sem væru orðin 12 mánaða eða eldri og enn á biðlista fengju um 200.000 krónur í mánaðarleg­ar biðlista­bæt­ur.

Víða biðlistar í borginni

„Það þarf að nýta fjármagnið sem best til að auka úrræðin. Það eru víða biðlistar í borginni,“ segir Einar í samtali við mbl.is. Sem dæmi nefnir hann biðlista eftir félagslegu húsnæði og þjónustu við fatlað fólk.

„Það er alveg viðbúið að þeir sem myndu fá biðlistabætur í leikskólakerfinu myndu ekki vera þeir einu sem myndu gera kröfu um biðlistabætur. Af því að aðrir hópar sem eiga rétt á lögbundinni þjónustu munu telja sig eiga skýra kröfu á að fá bætur líka. Í því samhengi má benda á að leikskólaúrræði er ekki lögbundin skylda sveitarfélaganna,“ bætir Einar við. 

Fatlaðir einstaklingar muni gera skýra kröfu

Að sögn Einars hefur hann þegar fengið skilaboð frá fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks um að þau muni gera skýra kröfur um bætur, enda sé þeirra þjónusta lögbundin. 

„Þá eru þessar upphæðir farnar að hlaupa á milljörðum mjög hratt. Það eru milljarðar sem fara þá ekki í þessa innviði,“ segir Einar.

Tillögunni um biðlistabætur var ekki hafnað af borgarráði. Var hún sendi til umsagnar hjá fjármála- og áhættustýringarsviði sem mun greina umfang hennar og þau lagalegu sjónarmið sem eru uppi varðandi jafnræði gagnvart örðum hópum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert