Áhyggjur af sáttmálanum

Vilhjálmur Árnason (í miðjunni).
Vilhjálmur Árnason (í miðjunni). mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef kallað eftir því undanfarið að það væri mikilvægt að samgöngusáttmálinn yrði endurskoðaður. Ég fagna því að stýrihópurinn er búinn að skrifa undir þetta minnisblað um að það þurfi að endurskoða sáttmálann. Hins vegar geri ég samt miklar athugasemdir við það ferli,“ segir Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Hann segir að minnisblaðið fjalli um þær áskoranir sem þarf að endurskoða. „Fyrst má nefna stjórnskipun sáttmálans, sem er mjög flókin og skapar ákveðna upplýsingaóreiðu í þessu máli. Síðan eru það fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Það þarf að taka mjög stórar ákvarðanir um það hvað sveitarfélögin eiga að borga og reka og hvað ríkið á að borga. Í þriðja lagi þarf að uppfæra allar áætlanir sem ekki hafa staðist, hvort sem það eru tímaáætlanir eða kostnaðaráætlanir,“ segir Vilhjálmur.

„Þá bendi ég á að öllum þessum stóru atriðum á að vera lokið með einhvers konar viðauka nú í lok júní 2023. Það á að ljúka þessu verkefni á þremur mánuðum sem ekki hefur tekist á rúmum þremur árum,“ segir Vilhjálmur.

Ekki borið undir þingið

Vilhjálmur segir að hann geri mjög alvarlegar athugasemdir við þessa tímalínu og ekki síst að ljúka eigi málinu þegar Alþingi verður komið í sumarfrí. „Það á að taka þarna mjög stefnumarkandi ákvarðanir, bæði með fjármál og forgangsröðun mjög stórra og þjóðhagslega mikilvægra framkvæmda, án þess að bera það undir þjóðþingið, sem hefur það hlutverk að koma fram með samgönguáætlun og samþykkja fjárlög.“

Verið sé að gera það pólitískt ómögulegt að samgöngusáttmálinn nái fram að ganga. „Það er það alvarlegasta í stöðunni að ekkert gerist til að bæta almenningssamgöngur og greiða fyrir umferð á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu. Ein af stóru ástæðunum fyrir því hversu hægt þetta hefur gengið er sú að Reykjavíkurborg hefur ekki gert neitt til að liðka fyrir skipulagsmálum samkvæmt samkomulaginu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert