Herrakvöldið er hápunktur ársins

Gestir á herrakvöldi Lionsklúbbsins Njarðar skemmta sér jafnan vel.
Gestir á herrakvöldi Lionsklúbbsins Njarðar skemmta sér jafnan vel. Ljósmynd/Aðsend

„Kvöldið er opið fyrir herramenn á öllum aldri. Við gerum okkur vonir um að það verði í salnum eitthvað á þriðja hundruð manns,“ segir Daníel Þórarinsson, formaður herrakvöldsnefndar Lionsklúbbsins Njarðar.

Eitt glæsilegasta herrakvöld landsins er einmitt herrakvöld Lionsklúbbsins Njarðar sem hefur verið haldið árlega í rúm 60 ár. Það verður haldið um aðra helgi, föstudaginn 24. mars í Gullteigi á Grand Hóteli. Kvöldið verður mjög glæsilegt, gestir spariklæddir, frábær matur og dagskrá að sögn Daníels.

Guðrún Árný treður upp

„Þetta er hápunktur starfsins hjá klúbbnum,“ segir hann stoltur. Í Lionsklúbbnum Nirði eru rúmlega 50 félagar og segir Daníel að síðustu ár hafi yngri menn bæst í hóp félagsmanna. Herrakvöldið er þó opið öllum herrum eins og áður segir. „Undirtektir hafa verið afar góðar í ár enda verður þarna bæði glæsileiki og gaman, mikil ánægja og það er alltaf mikið hlegið.“

Halli gullsmiður og Denni í Brimrúnu á einu af fyrri …
Halli gullsmiður og Denni í Brimrúnu á einu af fyrri herrakvöldum Lionsklúbbsins Njarðar. Ljósmynd/Aðsend

Á herrakvöldinu gera gestir vel við sig í mat og drykk auk þess sem boðið er upp á skemmtiatriði. Veislustjóri og uppboðshaldari á vinsælu listaverkauppboði verður hinn hnyttni Bragi Valdimar Skúlason, Ari Eldjárn skemmtir gestum með uppistandi og Guðrún Árný syngur og leikur á píanó.

Styrkja Grensásdeildina

Heiðursgestur í ár verður Gylfi Þór Þorsteinsson sem getið hefur sér gott orð sem stjórnandi farsóttarhúsa Rauða krossins á tímum kórónuveirunnar og var nú síðast í aðgerðastjórn vegna móttöku flóttamanna frá Úkraínu.

Daníel getur þess að nánari upplýsingar megi finna á Facebook með því að slá upp „Herrakvöld Lionsklúbbsins Njarðar“ eða hafa samband á lkl.njordur@gmail.com. Miðaverð er 19.900 krónur og segir Daníel að hringborðin í Gullteigi hafi hentað vel fyrir vinahópa sem vilja koma saman við þetta tilefni.

Daníel Þórarinsson, formaður herrakvöldsnefndar, og Halldór Einarsson, betur þekktur sem …
Daníel Þórarinsson, formaður herrakvöldsnefndar, og Halldór Einarsson, betur þekktur sem Henson. Ljósmynd/Aðsend

Listaverkauppboðið sem Bragi Valdimar stýrir varð fljótlega að föstum lið í starfi klúbbsins eftir stofnun hans og fer nú fram í 57. sinn að sögn Daníels. Afrakstur listaverkauppboðsins hefur reynst grundvöllur fjölþættra verkefna og nemur samtals um 220 milljónum króna það sem af er þessari öld, reiknað til núvirðis. Á þessum langa tíma hefur Njörður starfað náið með helsta myndlistarfólki landsins og í ár bætist einn fremsti listamaður Íslands, Sigurður Guðmundsson, í hópinn með skúlptúrverk. Hagnaði af listaverkauppboðinu verður varið til að styrkja Grensásdeild Landspítala á 50 ára afmæli deildarinnar nú í vor.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu á fimmtudaginn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »