Snéru öðrum skíðahópi við á Tröllaskaga

Björgunarsveitarfólk við störf. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarfólk við störf. Mynd úr safni. mbl.is/Óttar

Lára Stefánsdóttir, sem er í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Tröllaskagasvæðinu, segir snjóflóðahættu ekki alltaf liggja í augum uppi í samtali við mbl.is.

Björgunarsveitir á svæðinu björguðu í dag sjö manna hópi úr háska og voru tveir fluttir á sjúkrahús.

„Ég fæ gæsahúð“ 

Lára segir aðgerðirnar hafa gengið ótrúlega vel og kveðst stolt af sínu fólki.

„Ég fæ gæsahúð,“ segir Lára. „Það er magnað að sjá hvað allir eru ákafir í að hjálpa til.“  

Lára segir björgunarsveitarmenn einnig hafa snúið öðrum skíðahópi við sem varð á vegi þeirra eftir að björgunaraðgerðum lauk í dag.

„Þeim var snúið við af því dalurinn var hættulegur. En það vissi það svo sem enginn fyrir fram.“

Telur alla reyna að fara varlega

Hún kveðst þó ekki áfellast skíðafólk fyrir að leggja í skíðaferðalög þrátt fyrir að töluverðu hættustigi hafi verið lýst yfir, því það sé einfaldlega ekki óeðlilegt á Tröllaskaganum. „Töluvert hættustig“ er hættustig þrjú af fimm á mælikvarða Veðurstofunnar.

Lára telur því ekki hægt að segja að menn hafi farið í aðstæðum sem voru augljóslega hættulegar, þar sem það hafi ekki endilega legið í augum uppi fyrir almenna fjallaskíðamenn.

„Ég held það reyni allir bara að fara eins varlega og þeir geta,“ segir Lára.

Skíðafólk við Tröllaskaga. Myndin tengist ekki fréttinni með beinum hætti.
Skíðafólk við Tröllaskaga. Myndin tengist ekki fréttinni með beinum hætti. mbl.is/Bjarni Helgason

Áhættusækin íþrótt

Hún kveðst ekki sjálf vera fjallaskíðamanneskja, en leyfir sér að fullyrða að mikið af skíðamönnum séu samt sem áður áhættusæknir.

„Ég held að oft sé bara hluti af þessu sporti að vera í þessari spennu. Þegar fólk er að fleygja sér niður einhver gil á skíðum, veit það ekki nákvæmlega hvað gerist alltaf. Fólk er auðvitað misflinkt að lesa í þetta.“

Hún segist að sjálfsögðu hafa áhyggjur af hættu sem stafar af snjóflóðum, sérstaklega í ljósi þess að skíðaferðamennska hefur aukist töluvert á svæðinu á undanförnum árum.

 „Þetta er eitthvað sem fólki finnst gríðarlega spennandi og ég reyni að fræða mig um þetta af því að ég gegni þessu sjálfboðaliðastarfi.“

Væri heima allan veturinn ef hún hætti sér ekki út

Lára kveðst vissulega hafa áhyggjur af því hvernig björgunarsveitafólk eigi að koma sér á staði sem sumt fjallaskíðafólk hættir sér á.

„Manni er ekkert vel við að senda björgunarmenn á svæðið, en þetta er bara vinsæl ferðamennska og tímabilið er að hefjast,“ segir Lára og bætir við:

„Það er stórkostlegt að sjá myndbönd af því sem þau eru að gera en maður myndi ekki senda börnin sín í eitthvað svona.“

Lára tekur skýrt fram að hún sé ekki sérfræðingur í ofanflóðum og geti því ekki tjáð sig fræðilega um málið, en sem heimamaður kveðst hún hafa séð það grárra.

„Ég myndi ferðast, ég veit að þetta getur gerst, en ef ég ætlaði að vera alltaf heima þegar er töluverð hætta þá væri ég heima allan veturinn.“

mbl.is