Ætla að fara yfir verklag og vinnubrögð

Leifar eftir sprenginguna hafa fundist víða.
Leifar eftir sprenginguna hafa fundist víða. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég geri ráð fyrir því að við förum á staðinn strax eftir helgi og skoðum aðstæður,“ segir Guðmundur M. Magnússon, sérfræðingur á sviði vinnuverndar hjá Vinnueftirlitinu, um eldinn sem kviknaði í þaki nýbyggingar í Garðabæ í gær.

Næstu skref Vinnueftirlitsins eru að fara yfir verklag og vinnubrögð með verktaka, en eldsupptök liggja ekki fyrir. Mannvirkjateymi Vinnueftirlitsins muni vinna málið áfram, fara yfir verklag og uppfæra ef þess þarf.

„Við þurfum að nálgast menn í tengslum við áhættumat við þessa vinnu og hvernig verklagið er og annað í tengslum við þetta. Þetta getur mögulega verið tengt vinnubrögðum án þess að ég geti fullyrt nokkuð um það,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

„Við fengum ekki boð um þetta af því að við fáum venjulega ekki boð nema það verði slys á fólki, sem urðu sem betur fer ekki, en við erum í sambandi við lögreglu í framhaldi af svona málum. Lögreglan rannsakar vettvang og eldsupptök og við munum fá upplýsingar um eldsupptök þegar þau liggja fyrir og vinna málið út frá þeim gögnum.“

Slökkviliðið á þaki hússins síðdegis í gær.
Slökkviliðið á þaki hússins síðdegis í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tíu kílóum þyngri en gaskútar fyrir grill

Tveir gaskútar sprungu og skutust langar vegalengdir af þaki nýbyggingarinnar, en verið var að bræða þakpappa ofan á þakið.

„Kútarnir þurfa allar sínar vottanir og eru þrýstiprófaðir. Það eru vel þekkt vinnubrögð að nota gas þegar verið er að bræða svona þakpappa eins og menn virðast hafa verið að gera þarna,“ segir Guðmundur.

„Við gefum ekki út sérstakt leyfi fyrir meðhöndlun á svona kútum, það er í höndum verktakans að þjálfa sína menn, en við veitum fræðslu varðandi meðhöndlun. Þetta eru stærri kútar en fólk er með heima við grillið sitt, en þetta er sambærilegt.“

Um sé að ræða um það bil tuttugu kílóa kúta, en gaskútar fyrir grill eru í kringum tíu kíló að þyngd.

Slökkvilið að störfum á vettvangi í gær.
Slökkvilið að störfum á vettvangi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ótrúleg heppni að ekki fór verr

Guðmundur segir slys sem þessi ekki algeng.

„Sem betur fer heyrum við ekki oft af þessu, en svo bara eins og með slys almennt þá er einhver röð atvika sem verður sem leiðir til þess að það verður slys.

Við munum fara yfir verklagið með verktakanum með það að markmiði að koma í veg fyrir að svona geti gerst. Það er ótrúleg heppni að það skuli ekki hafa farið verr. Við munum fara yfir þessi mál og mögulega setja þá strangari kröfur ef það reynist nauðsynlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert