„Dauðbregður“ að sjá fólk hlaupa undan sprengingu

„Þetta minnir okkur á að það er gott að eiga …
„Þetta minnir okkur á að það er gott að eiga öflugt fólk í slökkviliði,“ segir bæjarstjórinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum ótrúlega þakklát fyrir að það fór ekki verr, að það urðu ekki slys á fólki, sem hefði nú hæglega getað gerst af því að þetta er í návígi við heimili okkar íbúa,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, um eldinn sem kviknaði í þaki nýbyggingar í bænum í gær.

Tveir gaskútar sprungu og skutust langar vegalengdir af þaki nýbyggingarinnar, en verið var að bræða þakpappa ofan á þakið. Enginn var við vinnu á svæðinu þegar eldurinn kviknaði.

„Þetta minnir okkur á að það er gott að eiga öflugt fólk í slökkviliði. Það er greinilegt að viðbrögðin þarna hafi verið mjög örugg. Það er bara ótrúlega dýrmætt að eiga svona öfluga aðila sem bregðast við og fara inn í aðstæður sem við hin skiljum ekki hversu krefjandi geta verið,“ segir Almar í samtali við mbl.is.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. mbl.is/Arnþór

„Myndir af fólki sem maður þekkir“

„Þetta er lítið samfélag og maður sér á miðlum myndir af fólki sem maður þekkir og kannast við vera að hlaupa undan sprengingu, manni auðvitað dauðbregður við að sjá þetta,“ segir Almar og bætir við að sem betur fer hafi enginn verið að vinna á þakinu þegar atvikið átti sér stað.

„Þetta minnir okkur á að svona lagað getur komið upp en sem betur fer fór ekki verr og sem betur fer eigum við þessa aðila sem bregðast við og afstýra hættunni.“

Stór íbúðabyggð í kring

Framkvæmdastjóri Framkvæmdafélagsins Eskiáss, sem byggir íbúðirnar, sagði við mbl.is í gær að vinna hafi staðið yfir við að klæða húsið að utan og þakið. Þá stóð til að hefja vinnu við að setja innréttingar inn í húsið.

„Okkur bregður náttúrulega þegar svona lagað kemur upp á. Það er tiltölulega stór íbúðabyggð þarna allt í kring og þetta er auðvitað eitthvað sem við þurfum að fylgja eftir,“ segir Almar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert