Er ég kominn aftur til 1970?

J. Ingimar Hansson rekstrarverfræðingur.
J. Ingimar Hansson rekstrarverfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér féllust eiginlega bara hendur þegar ég kynntist íslenska dómskerfinu af eigin raun og fyrir vikið langaði mig að koma reynslu minni á framfæri við fólkið í landinu,“ segir Jörgen Ingimar Hansson rekstrarverkfræðingur, spurður hvers vegna hann hafi ráðist í að rita bókina Réttlæti hins sterka – ádeila á dómskerfið og Alþingi, en hún kom út á dögunum.  

Í bókinni er fjallað um dómsmálin frá sjónarmiði rekstrar. Ingimar, eins og hann er jafnan kallaður, segir að hún sé að sumu leyti eins konar kennslurit um rekstur dómsmáls. Tilgangurinn sé að opna heim dómsmálanna hvað hann varðar, lýsa almennt rekstri dómsmáls á mannamáli og á gagnrýninn hátt og sýna hvernig megi bæta hann en gagnrýnin umræða um dóms­mál hafi oft verið lítil og erfið vegna þess að heimur þeirra sé meira og minna lokað­ur öðrum en lögmönnum og dómurum.

„Út frá öllum prinsippum sem ég hef lært á langri lífsleið þá er þetta kerfi út úr kú, svo að ég tali nú bara íslensku,“ segir Ingimar. „Þegar ég kom fyrst inn í dómsal þá leið mér eins og að ég væri kominn aftur til ársins 1970, þegar ég var að byrja minn starfsferil. Dómskerfið er ekki í neinum takti við samfélagið eins og það er í dag. Enda er það ein af niðurstöðum bókarinnar að meðferð dómsmála sé úrelt þar sem hún byggist á aðferðum og hugsun frá því löngu fyrir tölvuöld.“

Því þarf að breyta

Í bókinni segir Ingimar að lögum hætti til að vera í andstöðu við venjur í þjóðfélaginu eins og það er í dag sem geti svo aftur leitt til dóma sem ekki eru í samræmi við skilning almennings á réttu og röngu. „Því þarf að breyta.“

Þú fullyrðir í bókinni að það fari betur um sterka manninn í þessu kerfi?

„Já, ég geri það. Allur umbúnaður er þannig enda frá þeim tímum þegar fínir menn voru annars vegar og lubbar hins vegar. Lögin og dómskerfið í heild voru sniðin að sterka manninum sem hefur margt umfram lubbann og mun fleiri verkfæri á hendi. Fyrir vikið á sá síðarnefndi ekki mikla möguleika. Ef á þarf að halda eru mál bara látin bólgna út þangað til almenning brestur úthald.“

Hvers vegna hefur þetta ekki breyst í takt við samfélagið?

„Það er góð spurning,“ svarar Ingimar sposkur. „Ætli það sé ekki aðallega vegna þess að löggjafinn hefur engan áhuga á því. Hann er sáttur við kerfið eins og það er. Alþingi stendur af einhverjum ástæðum þétt á bak við þetta úrelta kerfi.“

Vekur vonandi umtal

Ingimar gerir sér fulla grein fyrir því að einhverjir eigi eftir að ypta öxlum og velta fyrir sér hvað rekstrarverkfræðingur og atvinnurekandi um árabil sé að vilja upp á dekk. „Því er til að svara að bókin er ekki um breytingar á lögum, heldur rekstur á kerfi og ég er háskólamenntaður í því að skipta mér af rekstri. Þess vegna fann ég hvað til míns friðar heyrði og byrjaði að greina. Þetta er niðurstaðan.“ 

Hverju vonarðu að bókin muni skila?

„Það er mín von að bókin og innihald hennar veki umtal og leiði í framhaldinu til umræðu um kerfi sem löngu er gengið sér til húðar. Það er löngu tímabært að íslenska dómskerfið fari í naflaskoðun. Sjálfur er ég svo sannarlega tilbúinn til samtals, hvar og hvenær sem er, verði eftir því óskað. Mér fannst að ég ætti að setja einhverja krafta þarna inn til að gera gagn í þjóðfélaginu og reyna að tala fyrir hönd þeirra 97% sem dómskerfið er ekki ætlað. Vonandi skilar sú vegferð einhverju.“ 

Nánar er rætt við Ingimar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »