Fólk rólegt og yfirvegað miðað við fyrri reynslu

Margir íbúar Neskaupstaðar hafa slæma reynslu af snjóflóðum.
Margir íbúar Neskaupstaðar hafa slæma reynslu af snjóflóðum. Ljósmynd/Landsbjörg

Formaður björgunarsveitarinnar Gerpir í Neskaupstað segir aðgerðir ganga vel. Vonast sé eftir því að aflétta rýmingu fyrir lok dags.

Staðan á svæðinu sé ágæt en rýmingarreglur séu jafn strangar enn sem komið er.

„Við erum að vinna í því núna að leyfa íbúum á þeim svæðum sem voru rýmd að sækja sitt dót. Gefa þeim kost á að fara heim til sín undir eftirliti og í fylgd björgunarsveitarmanna,“ segir Daði Benediktsson formaður björgunarsveitarinnar.

Hann segir andrúmsloftið í bænum nokkuð gott miðað við aðstæður.

„Miðað við það að það eru margir sem hafa slæma reynslu af snjóflóðum síðan 1974 að þá er fólk rólegt og yfirvegað.“

Taka einn dag í einu

Daði segir að unnið sé að því að tryggja vistir, vonandi verði afléttingar kynntar á rýmingaráætlun en það komi í ljós.

„Það er bara morgundagurinn sem tekur við, það eru ekki komin nein sérstök plön, einn dagur í einu. Auðvitað undirbúum við framhaldið, vinnum í vistamálum, fáum fleiri bjargir og svona,“ segir Daði að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert