Gengur ekki að skaða tengingar við Ísland

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist aðspurður hafa miklar áhyggjur af því hvaða afleiðingar það kynni að hafa fyrir land og þjóð ef fyrirhuguð löggjöf Evrópusambandsins um los­un­ar­heim­ild­ir verði innleidd hér á landi án sérstakra undanþága vegna sérstöðu Íslands sem eyríkis í Norður-Atlantshafi.

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra hefur kallað málið stærsta hagsmunamál Íslands frá upp­töku EES samn­ings­ins og hefur utanríkisþjónustan farið í for­dæma­laust átak til að reyna að hafa áhrif á lög­gjöf Evrópusambandsins.

Ekkert tillit. Engin innleiðing. 

„Það er grundvallaratriði í okkar huga að tekið verði tillit til íslenskra aðstæðna og ef það er ekki munum við ekki geta undirgengist það að innleiða slíkar reglur yfir okkur sjálf. Ég ætla að leyfa mér að trúa því áfram að við náum árangri í að fá áheyrn og að það verði tekið sérstakt tillit til okkar Íslendinga,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að bréf frá framkvæmdastjóra Evrópusambandsins sé til vitnis um það að fengist hafi áheyrn og að það sé komið á efsta stig til umræðu að Íslendingar þurfi nauðsynlega að fá sérstakt tillit tekið til þeirra aðstæðna. Að við séum norður í höfum og að taka þurfi sérstakt tillit til þeirrar atvinnustarfsemi sem getur orðið sérstaklega fyrir barðinu á breytingum reglanna.

„Á sama tíma og við erum mjög einbeitt að ná árangri í loftlagsmálum, sem þetta mál á að snúast um í grunninn, þá erum við sammála um að það gengur ekki að ganga þannig fram að það skaði stórkostlega tengingar við Ísland,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert