Hrikalegar fregnir frá Úganda

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Hákon Pálsson

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra segir fregnir frá Úganda, um að ströng lög gegn sam­kyn­hneigð hafi verið samþykkt á þingi þar í landi, vera hrikalegar.

Lönd sem virða ekki alltaf mannréttindi

Hún segir þróunarsamvinnu og -samstarf vera flókið fyrirbæri en gríðarlega mikilvægt.

„Við erum í þróunarsamvinnu í löndum þar sem mannréttindi einstaklinga og hópa eru alls ekki alltaf virt. Við erum í verkefnum í löndum þar sem til dæmis barnahjónabönd eru viðurkennd og annað.

Það liggur ekki enn fyrir, að ég tel, hvort forseti undirriti þessa löggjöf en það sem skiptir máli í þessu er að farið sé yfir málið á mjög yfirvegaðan hátt.“

Fagnar því að óskað sé eftir umræðunni

Þórdís Kolbrún segist fagna því að Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, skuli óska eftir umræðu um málið í utanríkismálanefnd.

„Það eru mismunandi skólar í þessu og það er allt í lagi að okkar samstarsríki finni fyrir því að við fylgjumst með og að við höfum áhyggjur af því þegar þverbrjóta á réttindi frjáls fólks sem er eingöngu að biðja um að vera eins og það er og elska þann sem það vill,“ segir Þórdís.

Framúrskarandi starf í Úganda

Utanríkisráðherra kveðst tilbúin í umræðuna.

„Við erum með framúrskarandi starf og verkefni í gangi í Úganda sem almenningur þar í landi nýtur góðs af. Það væri mjög stór ákvörðun að draga úr því.

Svo er spurning hvort við getum beitt okkur með öðrum hætti. Það er hægt að styðja við frjáls félagasamtök og það er hægt að hnika til áherslum meðal annars kannski til að bregðast við ef af verður að þessi löggjöf verði samþykkt til þess að ýta undir og aðstoða en það er bara eitthvað sem við þurfum að fara yfir,“ segir Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert