Mega ekki velja hvaða upplýsingar þingið fær

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á Alþingi.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á Alþingi. mbl.is/Hákon

„Það má ekki leyfa ráðherrum að taka sér það vald að ákveða hvaða upplýsingar þingið eigi að fá og hvað ekki.“

Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, í umræðu á Alþingi um vantrauststillögu fjögurra flokka stjórnarandstöðunnar gegn Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra.

Þórhildur Sunna sagði Jón hafa brotið gegn þingskaparlögum þegar hann neitaði að afhenda þinginu þau gögn sem það óskaði eftir. Þar með hafi hann brotið gegn upplýsingarétti Alþingis.

Slíkt brot sé alvarlegt gagnvart þinginu sem megi ekki láta slíkt yfir sig ganga eins og ekkert hafi gerst.

Þórhildur Sunna sagði að vantrauststillagan sé lögð fram til að standa vörð um grundvallarstjórnskipan Íslands. Hún snúist ekki um veitingu ríkisborgararéttar, Útlendingastofnun eða útlendinga. Jón hafi brotið gegn þrískiptingu ríkisvaldsins og þegar slíkt gerist eigi ráðherrar að víkja.

mbl.is