Slökkvilið kallað til vegna eiturgufa

Aðgerðirnar tóku um klukkutíma.
Aðgerðirnar tóku um klukkutíma. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Rafgeymar í turni Hallgrímskirkju fóru að leka og byrjaði eiturgufa að myndast vegna þessa. Ein stöð var send á vettvang með reykköfunarbúnað meðferðis.

Þetta staðfestir Stefán Kristinsson, varðstjóri í aðgerðarstjórn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Útkallið barst til slökkviliðsins rétt fyrir klukkan tólf og tóku aðgerðir um klukkutíma.

„Við sendum eina stöð með reykköfunartæki og í einnota eiturefnagöllum upp til að kanna hvað var að, þá sáu þeir að það voru rafgeymar að leka og gáfu frá sér smá gufur sem eru hættulegar. Þeir voru aftengdir og síðan er rýmið látið standa í nokkra daga og þá er hægt að fara inn og klára málið,“ segir Stefán.

Hann segir mikla hættu ekki hafa verið á ferðum þar sem enginn fór inn á svæðið áður en slökkviliðið leysti málið.

mbl.is