Huldumaðurinn úr flugferðinni örlagaríku fundinn

Sveinn Snorri Sighvatsson leiðsögumaður var til staðar fyrir systkinin í …
Sveinn Snorri Sighvatsson leiðsögumaður var til staðar fyrir systkinin í flugferðinni örlagaríku. Samsett mynd

Huldumaðurinn sem hjálpaði Gerði Petru Ásgeirsdóttir og bróður hennar í örlagaríkri flugferð fyrir ári, þegar faðir systkinanna varð bráðkvaddur, er nú fundinn. Maðurinn heitir Sveinn Snorri Sighvatsson og er 51 árs leiðsögumaður.

Gerður hefur ekki náð sambandi við manninn enn sem komið er en segist finna fyrir miklum létti að hafa loksins fundið hann og kveðst mjög spennt að geta talað við hann og þakkað honum fyrir.

Eins og greint var frá í gær lýsti Gerður eftir manni á facebooksíðu sinni sem hefði reynst henni og bróður hennar einstaklega vel þegar faðir þeirra lést skyndilega í flugferð frá Kanarí til Íslands. Í samtali við mbl.is sagði Gerður að maðurinn hefði verið til staðar og aðstoðað þau með allt sem þau þurftu á að halda á þessum erfiða tíma.

Aldrei talað um þetta

Sveinn bendir á í samtali við mbl.is að ástæða þess að enginn hafi vitað hver huldumaðurinn væri, þrátt fyrir lítið land, væri að hann hafi ekki rætt atvikið við nokkurn mann.

„Ég hef aldrei talað um þetta. Ég tala aldrei um nein af þessum slysum sem ég hef orðið vitni að eða komið að. Það hefur oft gerst að fólk reyni að hafa samband við mig í kjölfarið á einhverju svona. Við skulum gera undantekningu núna.“

Hann áréttar jafnframt að hann sé ekki sjúkraflutningamaður heldur hefur hann sérhæft sig í skyndihjálp á fjalllendi og að björgunarsveitarferillinn sé langur og mikill.

Réttur maður á röngum stað

Hann tekur þá fram að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hann lendi í svipuðum atvikum og því sem átti sér stað í flugferðinni fyrir ári.

„Ég hef lent í alveg ótrúlega mörgu lygilegu og er einhvern veginn alltaf réttur maður á röngum stað. Þetta var í þriðja skiptið í flugvél sem einhver veikist eða næstum því deyr. Það var eitt hjartaáfall þar sem ég pumpaði hann í nærri 60 mínútur og öll bílslysin og beinbrotin og fimm hjartaáföll sem ég hef pumpað í gang.“

Sveinn hefur starfað sem leiðsögumaður frá 1997 og því lent í ýmsum uppákomum á ferðalögum sínum. Hann ítrekar hve mikilvæg skyndihjálp er og bendir á að það geti bjargað mannslífi.

„Þetta er hluti af því að gefa til samfélagsins. Að geta stokkið til og verið óhræddur við að taka mjög erfiðar ákvarðanir.“

mbl.is