Fé með riðu ekki fellt frá og með deginum í dag

Fjöldi kinda hefur verið felldur vegna nýlegra smita.
Fjöldi kinda hefur verið felldur vegna nýlegra smita. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá og með deginum í dag verður fé ekki fellt greinist riða á bæjum. Þetta er gert með dýraverndunarsjónarmið að leiðarljósi vegna sauðburðar. Yfirdýralæknir Matvælastofnunar segist óttast frekari smit en vonar að svo sé ekki.

Riðuveiki greindist í tveimur bæjum í Miðfirði, á Bergsstöðum og á Syðri-Urriðaá. Fella þurfti 1.410 fjár í heildina. Tuttugu kindur voru notaðar í smitrakningu í hvoru tilfelli.

Erfitt hefur reynst að finna förgunarleið fyrir þær 690 sem fargað var á Bergsstöðum vegna bilunar hjá einu brennslustöð landsins Kölku. Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá MAST segir lausn á förgun í sjónmáli en engin smithætta sé af fénu sem hafi verið fargað nú vegna þess að það sé geymt í lekaheldum gámum.

Sjúkdómurinn hæggengur 

Spurð hvernig staðan sé með smit á fleiri bæjum segir Sigurborg stofnunina hafa náð utan um smitrakninguna.

„Við óttumst það, vonum að svo sé ekki en óttumst það,“ segir Sigurborg um möguleikann á fleiri smitum.

„Ef ekki greinist riða í fé þá er ekki þar með sagt að það sé ekki smitað. Það er pottþétt ef það greinist, þá er alveg örugglega riða en ef það greinist ekki þá er ekki þar með sagt að það sé ekki riða. Það er bæði vegna þess að prófið er ekki hundrað prósent nákvæmt í að finna allt og svo er sjúkdómurinn svo hæggengur að það líður svo langur tími frá því að kind smitast þangað til að klínísk einkenni koma fram,“ segir Sigurborg. Baráttunni sé því ekki lokið og mikilvægt sé að anda með nefinu og reyna að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

Spurð hvort að notkun sótthólfa í stað heildarfellingar hafi komið til umræðu hjá Mast segir Sigurborg svo vera en forsenda fyrir notkun sótthólfa sé að verndandi arfgerð finnist í hjörðinni. Verndandi arfgerðin ARR hafi einungis fundist á einum bæ austur á fjörðum. Notkun sótthólfa séu því framtíðaráform fremur en annað. Hún voni þó að þau áform rætist.

Skoðað yrði að þyrma fé með verndandi arfgerð

Hvað varðar nálægð við sauðburð segir Sigurborg fé ekki verða fellt frá og með deginum í dag vegna dýraverndunarsjónarmiða. Miðað sé við að þegar fengið dýr sé gengið meira en níutíu prósent af meðgöngu skuli það ekki flutt og miðað sé við það sama þegar kemur að aflífun. Allt rót á fé á þeim tíma geti komið af stað burði.

Spurð hvort að möguleiki sé að þyrma einhverjum lömbum sem komi úr sauðburði núna greinist riða segir hún verndandi arfgerð skipta máli. Ræktun á fé með verndandi arfgerð sé ekki komin langt og hafi ekki fundist nema fyrir austan. Henni sé þó kunnugt að hrútar sem beri vendandi arfgerð hafi verið notaðir í sæðingu og skoða þurfi þau lömb sem gætu borið það í kjölfarið.

Spurð hvort að allt fé og þá meðtalin lömb úr yfirvofandi sauðburði verði þá aflífað nema verndandi arfgerð finnist segist hún vilja komast hjá því ef mögulegt er.

„Reglugerðin segir til um að það eigi að aflífa allt en ég myndi skoða það mjög vel hvort það væri ekki hægt að finna möguleika til þess að geta sneitt hjá því. En það er þá bara næsta skref, hvar á að geyma það fé, því það þarf að vera í einangrun frá öðrum dýrum í einhvern tíma,“ segir Sigurborg. Hugsa þurfi málið til enda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert