Kæra á hendur Vítalíu og Arnari enn til rannsóknar

Eva B. Helgadóttir, lögmaður Hreggviðs Jónssonar, segir ákvörðun héraðssaksóknara um að hætta rannsókn vegna kæru Vítalíu Lazarevu á hendur Hreggviði ekki hafa komið á óvart.

„Það kemur mér ekki á óvart að rannsókninni sé hætt, ég get ekki farið neitt efnislega út í það en það kemur mér alls ekkert á óvart. Það er bara ekki talin ástæða til þess að rannsaka þetta frekar,“ segir Eva í samtali við mbl.is.

Málið varðar samkvæmi í sumarbúsað í október 2020 en eins og áður hefur komið fram hefur Vítalía sagt að brotið hafi verið á henni í samkvæminu.

Ríkisútvarpið hefur greint frá því að Vítalía hyggist kæra ákvörðun héraðssaksóknara til ríkissaksóknara. Eva segist ekki eiga von á því að ríkissaksóknari snúi við ákvörðuninni

„Það er mjög sjaldgæft að ríkissaksóknari snúi ákvörðun héraðssaksóknara við. Það eru bara mjög litlar líkur á því.“ segir hún.

Hreggviður Jónsson.
Hreggviður Jónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Mál þremenninganna enn til rannsóknar

Hreggviður greindi frá því í yfirlýsingu í gær að niðurstaðan hefði ekki komið honum á óvart enda hafi hann frá upphafi sagst ekki hafa gerst brotlegur við lög.

Þeir Hreggviður, Þórður Már Jóhannsson og Ari Edwald kærðu Vítalíu og Arnar Grant fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot á friðhelgi einkalífs í júní á síðasta ári. Spurð hver sé staðan á því máli, segir Eva að það sé enn í rannsókn.

„Það er enn þá í rannsókn hjá héraðssaksóknara, henni er ekki lokið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert