Andlát: Björg Finnbogadóttir

Björg Finnbogadóttir lést á Akureyri 23. maí sl., rétt að verða 95 ára. Björg fæddist 25. maí 1928 á Eskifirði, dóttir hjónanna Finnboga Þorleifssonar, skipstjóra og útgerðarmanns, og Dórotheu Kristjánsdóttur, húsfreyju á Eskifirði.

Björg ólst upp á Eskifirði fyrstu árin en þegar hún varð tíu ára fluttist fjölskyldan til Akureyrar.

Björg giftist Baldvini Þorsteinssyni skipstjóra árið 1952, en hann lést árið 1991. Þau áttu þrjú börn, Margréti, kennara á Akureyri, Þorstein Má, forstjóra Samherja, og Finnboga, framkvæmdastjóra og ráðgjafa, en hann er búsettur í Þýskalandi.

Björg, sem alltaf var kölluð Bella Finnboga, var lærð hárgreiðslukona og starfaði við það á sínum yngri árum. Hún vann þó margvísleg önnur störf um ævina og lengst vann hún á skrifstofu sláturhúss KEA á Akureyri.

Hún fylgdist vel með bæjar- og þjóðmálum alla tíð og lét sér annt um málefni samborgaranna. Hún var formaður Félags eldri borgara á Akureyri í mörg ár og var virk í félagsstarfi eldri borgara í bænum, segir á fréttavefnum akureyri.net.

Hún var góð skíðakona og eignaðist marga vini í gegnum skíðaíþróttina. Þau hjónin opnuðu heimili sitt fyrir keppendum og þjálfurum sem nutu gestrisni þeirra þegar þeir komu til æfinga og keppni í Hlíðarfjalli.

Síðar heillaðist hún af golfíþróttinni og sinnti henni af sama kappi og skíðaíþróttinni áður í góðra vina hópi. Hún lét aldurinn ekki aftra sér og sást síðast á golfvellinum síðasta sumar, þá 94 ára gömul.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert