Fordæma brottnám barnanna

Myndin er tekin í grunnskóla í Kænugarði.
Myndin er tekin í grunnskóla í Kænugarði. AFP/Genya SavilovGENYA SAVILOV

„Þingsályktunartillagan er frá utanríkismálanefnd allri og kemur í kjölfar funda okkar með úkraínskum þingmönnum,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið.

Téð ályktunartillaga, sem lögð var fram í gær, snýst um að Alþingi fordæmi harðlega ólöglegt og kerfisbundið brottnám úkraínskra barna á hernumdum svæðum rússneska hersins í Úkraínu og flutning þeirra, hvort tveggja innan þeirra svæða og til Rússlands og Hvíta-Rússlands enda teljist brottnámið stríðsglæpur.

„Þessi tillaga er bara í takti við aðrar aðgerðir og stuðningsyfirlýsingar sem við höfum ráðist í,“ segir Diljá Mist. „Íslensk stjórnvöld og þingið hafa frá upphafi fordæmt ólögmæta innrás Rússlands í Úkraínu og lýst yfir eindregnum stuðningi við Úkraínumenn. Eins er vert að nefna að það er viss samhljómur með þessari tillögu og tillögu sem við samþykktum nýlega á Alþingi og fékk sérstaklega greiða meðferð á þinginu og fjallaði um Holodomor [hungursneyðina í Úkraínu á fjórða áratug síðustu aldar],“ segir Diljá Mist.

Þar hafi einmitt verið minnt á í greinargerð hve mikilvæg skilaboðin séu á þessum tímum, þegar heimurinn er á ný vitni að hrottalegum gjörðum rússneskra stjórnvalda.

Börnum tafarlaust komið til foreldra sinna

Í tillögunni kemur einnig fram að það sé eindregin afstaða Alþingis að rússnesk stjórnvöld skuli þegar í stað láta af brottnámi barna sem brýtur í bága við alþjóðleg mannúðarlög og teljist stríðsglæpur eins og nýlega hafi verið áréttað í yfirlýsingu leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík.

Börnunum skuli tafarlaust komið til foreldra sinna eða annarra forráðamanna undir eftirliti alþjóðasamfélagsins og rússnesk stjórnvöld og aðrir gerendur dregnir til ábyrgðar.

„Alþjóðasamfélagið og stofnanir þess hafa fordæmt brottnám á úkraínskum börnum harðlega á liðnum mánuðum. Þannig hafa Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið, Evrópuþingið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu fordæmt framferði rússneska hersins. Skemmst er að minnast fordæmalausrar handtökuskipunar dómara Alþjóðlega sakamáladómstólsins frá 17. mars sl. á hendur Vladímír Pútín, forseta Rússlands, og Mariu Alekseyevnu Lvovu-Belovu, umboðsmanni barna í Rússlandi, fyrir stríðsglæpi vegna brottnáms úkraínskra barna,“ segir enn fremur í ályktun þingsins.

Diljá Mist Einarsdóttir er varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Diljá Mist Einarsdóttir er varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: