Mesti hitinn á landinu það sem af er ári

Kvísker í Öræfasveit.
Kvísker í Öræfasveit. mbl.is/RAX

Hæsti hitinn á landinu það sem af er ári mældist á Kvískerjum undir Öræfajökli í morgun.

Spurður segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, að þarna hafi verið bæði sólskin og dálítill vindur, sem sé nauðsynlegur til að svona hár hiti náist. Loftið þurfi að standa af landi en ekki hafi, eins og á vestanverðu landinu.

Hann segir Skaftafell vera þekkt fyrir mikinn hita í austan- og norðaustanátt en Kvísker frekar í vestan- og suðvestanátt.

„Það er búið að vera hlýtt á austurhelmingi landsins, í grófum dráttum, nema kannski alveg næst við ströndina. Alls staðar þar sem vindur stendur ofan af hálendi fáum við þessi hnúkaþeys-áhrif. Þau gefa okkur miklu hærri hitatölur heldur en þar sem vindur stendur af hafi,“ greinir Óli Þór frá og bætir við að vestantil hafi hitinn aftur á móti lítið farið yfir 10 stig í skýjuðu sjávarloftinu þar.

Hann reiknar með því að hitinn fari lítillega yfir 20 stig á austurhelmingi landsins næstu fimm til átta daga. 

mbl.is