Óttast framhaldið

Magdalena er ekki bjartsýn á að samningar náist fyrir næstu …
Magdalena er ekki bjartsýn á að samningar náist fyrir næstu viku og óttast áhrifin sem verkfallið hefur á börn og fjölskyldur þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmaður leikskóla á Selfossi ekki bjartsýn á að búið verði að semja í næstu viku þegar ótímabundnar verkfallsaðgerðir hefjast. Foreldri barna á leikskóla í Borgarnesi segir aðgerðirnar hafa mikil áhrif á vinnu sína. 

Verkfallsaðgerðir BSRB halda áfram að hafa víðtæk áhrif. Lítið hefur miðast áfram í viðræðum en þó hefur verið boðað til samningafundar klukkan átta í kvöld. Síðasti samningafundur var á mánudaginn í síðustu viku en ekki hafði þótt ástæða til þess að boða til annars fundar síðan þá. 

Verkfallsaðgerðir skerði hugsanlega sumarfrí

Magdalena Anna Reimus, sem sinnir sérstuðningi á leikskólanum Hulduheimar á Selfossi, segir ekki gott að vera í verkfalli. Það sé ekki gott að þurfa að fara frá starfinu sínu enda hafi það ekki einungis áhrif á hana heldur sérstaklega þau börn sem þurfa á stuðning að halda. Þau börn fá ekki að koma á leikskólann enda enginn sem má sinna starfi þeirra sem eru í verkfalli.

Hún er ekki bjartsýn á að samningar náist fyrir næstu viku og óttast áhrifin sem verkfallið hefur á þennan hóp barna og fjölskyldur þeirra. Foreldrar hafi þurft að vera heima með börnin sínu heilu og hálfu dagana sem geti ekki verið góð staða inn í sumarfríið, enda skerði verkfallsaðgerðir hugsanlega sumarfrí foreldra. 

Lausnin gæti falist í að senda börnin í sveit

Verkfallsaðgerðir hafa þó ekki einungis áhrif á foreldra barna sem þurfa sérstuðning. Kara Lau Eyjólfsdóttir, foreldri barna á leikskólanum Uglukletti í Borgarnesi, segir mjög slæmt að grípa þurfi til verkfallsaðgerða, enda séu áhrifin víðtæk. Aðgerðirnar skerði mjög vinnu hennar og mannsins hennar, en þó bitni þær mest á henni þar sem maðurinn hennar er í úthöldum yfir sumartímann. 

Kara segir það þannig á Uglukletti þessa vikuna að börnin séu heima einn dag en fái að mæta hina dagana. Þá daga þurfa foreldrar samt sem áður að sækja börnin í hádeginu og gefa þeim að borða áður en þau geta farið með þau aftur á leikskólann. Þakkar Kara vinnuveitendum sínum fyrir liðlegheit, en henni býðst að gefa börnunum sínum að borða á vinnustaðnum sínum. 

Þreytt á því hversu erfiðlega gengur að semja

Hún veit þó ekki hvernig hún kemur til með að tækla framhaldið en Kara og maðurinn hennar hafa ekkert tengslanet í Borgarnesi sem þau geta reitt sig á ef verkfallsaðgerðir dragast á langinn. Því þurfi þau hugsanlega að senda börnin sín í sveit, en foreldrar þeirra beggja eru búsettir í sveit. 

Þrátt fyrir það skilur Kara full vel að fólk sé í verkfalli og segir að ef það verið væri að brjóta á hennar réttindum þá myndi hún líka vilja stuðning. Hún sé þó orðin þreytt á því hversu erfiðlega gengur að semja og vildi heldur að hægt væri að leysa hlutina án þess að þurfa grípa til verkfallsaðgerða.

mbl.is