Hækkanir senda út kolröng skilaboð

Kristrún Frostadóttir.
Kristrún Frostadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirhugaðar launahækkanir æðstu embættismanna þjóðarinnar ganga ekki upp, að mati Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar.

Hún segir hækkanirnar, sem eiga að taka gildi 1. júlí, senda kolröng skilaboð til vinnumarkaðarins og nefnir einnig að andi laganna sem voru sett árið 2019 um fyrirkomulag launa embættismannanna sé að þessi hópur skeri sig ekki úr launaþróun. Þennan anda þurfi að virða.

Frá setningu Alþingis á síðasta ári.
Frá setningu Alþingis á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef staðan er sú að þorri fólks sem hefur núna samið bæði á almenna og opinbera markaðnum um þak til að koma í veg fyrir að launahækkanir flytjist svona upp stigann og við sjáum ákveðið höfrungahlaup þá hljótum við að þurfa að taka mið af því,” segir Kristrún, spurð úr í hækkanirnar fyrirhuguðu. 

Hún bætir við að ef lögin ná ekki utan um upphaflegt viðmið sín um að embættismennirnir skeri sig ekki úr þá verði að gera breytingar á þeim, að minnsta kosti til bráðabirgða.

Ætlið þið að beita ykkur á þeim vettvangi?

„Forsætisráðherra veit alveg á hvaða skoðun ég er. Það mun ekki standa á okkur að styðja breytingar á þessu núna en við erum ekki með meirihluta í þinginu. Mér finnst eðlilegast að útfærslan á þessu komi frá ríkisstjórninni,” svarar hún og segir mjög eðlilegt í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu að þessar breytingar verði gerðar og sátt náist fyrir sumarfrí.

„Við verðum að taka mið af því að það er ólga á vinnumarkaði akkúrat núna og að okkar mati í Samfylkingunni hefur ríkisstjórnin ekki staðið sig þegar kemur að því að koma með aðgerðir inn í þingið til að styðja heimilin og húsnæðismarkaðinn og koma í veg fyrir þessa ólgu á vinnumarkaði.”

Kristrún segir flokk sinn ætla að halda áfram að þrýsta á aðgerðir fyrir þinghlé og nefnir að tillögur að efnahagsaðgerðum séu væntanlegar á næstu dögum.

mbl.is