Stúlkan átt erfitt með svefn og fengið martraðir

Mosfellsdalur.
Mosfellsdalur. mbl.is/Árni Sæberg

„Það fór eiginlega allt úrskeiðis þarna sem gat farið úrskeiðis. Það er nógu slæmt að það sé brotið á barni í sumarbúðum fyrir fötluð börn, en það sem kom á eftir var eiginlega annað áfall fyrir okkur,“ segir Einar Örn Jónsson, faðir stúlku sem var beitt kynferðislegu ofbeldi í sumarbúðum í Reykjadal.

Brotið átti sér stað í sumarbúðum Samtaka fatlaðra og lamaðra (SLF) í Reykjadal í Mosfellsbæ í fyrra. Gerandinn er þroskaskertur starfsmaður sem var í verndaðri vinnu í Reykjadal. Faðir stúlkunnar segir það hafa verið áfall að uppgötva að engar viðbragðsáætlanir hefðu verið til staðar um brot sem þessi.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) telur að alvarlegur og margþættur misbrestur hafi leitt til þess að brotið átti sér stað. Í skýrslu GEV segir meðal annars að viðbrögð stjórnenda Reykjadals hafi verið ómarkviss og einkennst af þekkingarleysi.

Einar segist sáttur við skýrsluna og að hún staðfesti frásögn foreldranna. Þakkar hann GEV fyrir vel unnin störf.

Tóku lök af rúmum og keyrðu gerandann heim

„Eins og skýrslan sýnir þá einkenndist þetta allt af einhverju fáti og óvissu. Í raun gerði starfsfólk að miklu leyti illt verra með röngum viðbrögðum,“ segir Einar og vísar til þess að ekki hafi verið hringt í lögreglu og barnavernd um leið, eins og hefði átt að gera. Þá hafi vettvangi verið spillt með því að taka lök af rúmum og keyra gerandann heim.

Aðspurður segir Einar að birting skýrslunnar hafi vissulega ýft upp gömul sár, en bætir við að hún sé nauðsynleg.

„Í raun alltaf þegar umræða kemur upp um þetta mál þá ýfir það upp sárin, en um leið hjálpar það svolítið til við að græða þau. Þetta er nauðsynlegt fyrir okkur til að ná að ljúka þessum hluta málsins,“ segir hann og tekur fram að málið sé í raun tvíþætt, annars vegar sakamálið og hins vegar það sem snýr að mistökum af hálfu starfsfólks Reykjadals og SLF. Rannsókn málsins er nú lokið.

Legið þungt á fjölskyldunni

„Þetta hefur legið þungt á okkur mjög lengi, eða alveg frá því að þetta gerðist.“

Hann segir atvikið hafa tekið mikið á stúlkuna. Það hafi til að mynda haft áhrif á hegðun hennar og skap, sérstaklega fyrstu vikurnar. Hún hafi átt erfitt með svefn og fengið martraðir og „flassbökk“.

„Þetta hefur haft ýmis áhrif. Þetta á auðvitað eftir að fylgja henni alla ævi og svo veit maður ekki hvort afleiðingarnar verða verri seinna, af því að hún er það ung. Þá þurfum við að vera alveg tilbúin að hjálpa henni í gegnum það.“

mbl.is