Gunnsteinn bæjarlistamaður Garðabæjar

Gunnsteinn Ólafsson.
Gunnsteinn Ólafsson. Ljósmynd/Leifur Wilberg Orrason

Gunnsteinn Ólafsson, hljómsveitar- og kórstjóri, tónskáld og frumkvöðull, hefur verið valinn bæjarlistamaður Garðabæjar 2023.

Útnefningin fór fram við hátíðlega athöfn í Sveinatungu í Garðabæ  í gær. Kvöldið áður stjórnaði Gunnsteinn flutningi á Carmina Burana eftir Carl Orff þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands lék. 300 manna kór söng ásamt þremur einsöngvurum.

Gunnsteinn stjórnar Háskólakórnum og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins auk þess sem hann er stofnandi og stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði, að því er kemur fram í tilkynningu.

Ljósmynd/Leifur Wilberg Orrason

Við sama tilefni var John Speight, söngvari og tónskáld, heiðraður fyrir framlag sitt til menningarlífs. Hann hefur búið á Íslandi frá árinu 1972, lengst af á Álftanesi. Speight starfaði sem söngvari og kennari en undir lok áttunda áratugarins fór hann að semja í meira mæli.

Við athöfnina í gær söng Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir mezzósópran lagið Tálsýn eftir Gunnstein Ólafsson og Morgunljóð I og II eftir John Speight. Þá voru styrkir til ungra hönnuða og listamanna veittir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert