Fundað í Karphúsinu – „Mjög mikið undir“

Frá fundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga í Karphúsinu í …
Frá fundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga í Karphúsinu í síðustu viku. mbl.is/Eyþór

Fundur sáttasemjara með samninganefndum BSRB og Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefst klukkan eitt í dag. Ef ekki næst að semja munu hátt í 2.500 manns leggja niður störf á morgun. Varaformaður BSRB segist vongóður um að samningar náist í dag, enda „mjög mikið“ undir.

„Samband sveitarfélaga hefur gefið út þá yfirlýsingu að það muni gæta fulls jafnræðis milli allra félaga sem semja. Það sem eftir stendur er að jafnræðið nái líka yfir launagreiðslur sem okkar fólk hefur orðið af og með því að ganga frá málinu svona þá er tiltölulega einfalt að klára þetta í dag ef fullur vilji er fyrir hendi,“ segir Þórarinn Eyfjörð, varaformaður BSRB.

„Í þessari jafnréttisstefnu sem sambandið hefur þá á ekki að vera mikið mál að ganga frá þessu.“

Hagur allra að ná landi fyrir morgundaginn

Aðspurður segist Þórarinn reikna með löngum fundi í dag.

„Það þarf alltaf töluverðan tíma í síðustu metrana og þyngdin í þessu er mjög mikil, verandi komin í verkföll, en við ætlum bara að vera bjartsýn af því að það er hagur allra að við náum landi fyrir morgundaginn.

Það er mjög mikið undir og ég held að enginn vilji fara inn í þessa viku með allan þann óróleika og óreiðu sem verkfallsaðgerðum mun fylgja og þau vandræði sem þetta býr til fyrir alla. Þetta vill enginn og með góðum vilja þá getur sambandið klárað þetta með okkur í dag,“ segir Þórarinn. 

mbl.is