Allt í lamasessi á Akureyri

Akureyri. Mynd úr safni.
Akureyri. Mynd úr safni. mbl.is/Hafþór

Allt virðist vera í lamasessi á Akureyri vegna verkfalls félagsfólks BSRB sem hefur víðtæk áhrif á þjónustu Akureyrarbæjar. Í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar kemur fram að verkfallið hafi þau áhrif að ýmis þjónusta á vegum bæjarins liggur niðri eða hefur skerst verulega.

Eins og greint hefur verið frá slitnaði upp úr kjaraviðræðum BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga í Karphúsinu á öðrum tímanum í nótt án niðurstöðu. Þar sem aðilarnir komust ekki að samkomulagi hófust víðtækar verkfallsaðgerðir BSRB í dag í 29 sveitarfélögum. 

Strætó gengur ekki og sundlaugar lokaðar

Áhrif verkfallsins á Akureyrarbæ eru víðtæk eins og áður segir en í því fellst að strætisvagnar bæjarins ganga ekki á meðan á verkfallinu stendur, sundlaugarnar á Akureyri, Grímsey og Hrísey verða lokaðar og fjölskyldugarðurinn við Sundlaug Akureyrar verður lokaður.

Að auki verður íþróttahúsið við Glerárskóla og Íþróttahöllin á Akureyri lokuð jafnt og Malbikunarstöð Akureyrar sem mun ekki starfa á meðan á verkfallinu stendur. Þar af leiðandi frestast flestar gatna- og stígaframkvæmdir.

Ferilþjónusta fatlaðra skerðist

Þá kemur jafnframt fram að þjónusta ferilbíla sem þjónustar aldraða og fatlaða við að komast á milli staða verður verulega skert. Þjónusta frá Umhverfismiðstöð Akureyrar skerðist einnig verulega en í því felst að sláttur og hirðing í bæjarlandinu skerðist. 

Þá mun opnunartími Ráðhúss Akureyrarbæjar skerðast verulega. Ráðhúsið verður aðeins opið frá klukkan 11.00 til 12.00. Er viðskiptavinum bent á að nýta sér rafræna þjónustu eins og hægt er, svo sem tölvupóst, netspjall og ábendingargátt á heimasíðu.

mbl.is