Leikstjóri Grimmdar dæmdur fyrir fjárdrátt

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Anton Inga Sigurðsson, leikstjóra kvikmyndarinnar Grimmd, fyrir fjárdrátt og peningaþvætti og var hæfileg refsing talin tíu mánaða skilorðsbundin fangelsisvist. Við ákvörðun refsingar var horft til þess að nokkuð er liðið síðan að málið gæti talist fullrannsakað.

Anton Ingi var ákærður í fjórum liðum fyrir að hafa ráðstafað tekj­um af miðasölu með ólög­mæt­um hætti. Í fyrsta lagi var um 3,2 milljóna króna greiðslu að ræða sem tengdist sölu á sýningarrétti í sjónvarpi. Í öðru lagi var um eins milljóna króna greiðslu að ræða sem fékkst fyrir að selja sýningarrétt í sýningarkerfi Icelandair. Í þriðja lagi var hann ákærður fyrir 4,3 milljóna króna greiðslu til annars manns og í fjórða lagi fyrir að hafa dregið sér 18,5 milljónir, en uppruni fjármunanna kom til vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Samtals var því um að ræða 27 milljónir.

Dómurinn féllst á rök ákæruvaldsins í sambandi við lið a, b og d upp á samtals 22,7 milljónir og dæmdi hann sekan fyrir fjárdrátt. Hins vegar var ákærulið c, þar sem Anton Ingi var ákærður um 4,3 milljóna fjárdrátt, vísað frá dómi þar sem ekki voru færðar nægar sönnur fyrir sekt hans.

Fram kemur í dóminum að Anton Ingi hafi ekki sýnt af sér athæfi síðan sem gefur ástæðu til að þyngja dóminn og var fullnustu refsingar frestað og verður hún felld niður að tveimur árum liðnum, haldi hann almennt skilorð. Honum er gert að greiða fjóra fimmtu hluta málsvarnarlauna sinna en ríkissjóður greiðir einn fimmta. Hann neitaði sök fyrir dómi og krafðist að ákæra um fjárdrátt yrði felld niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert