Tillaga um umhverfismat í Skerjafirði felld niður

Skerjafjörður.
Skerjafjörður. mbl.is/Árni Sæberg

Tillaga Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórn Reykjavíkurborgar um að fyrirhugað byggingarsvæði í Skerjafirði færi í umhverfismat var felld á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag. 

Tillagan var felld með þrettán atkvæðum gegn sjö. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins greiddu atkvæði með tillögunni en Sósíalistaflokkurinn og Vinstri grænir sátu hjá. 

Mikið hefur verið deilt um fyrirhugaða uppbyggingu í Skerjafirðinum á síðustu vikum en til dæmis hvatti Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, borg­ar­yf­ir­völd til að láta af áætl­un­um um fyr­ir­hugaða upp­bygg­ingu byggðar í nýja Skerjaf­irði. Hann sagði jafnframt að framkvæmdir myndu hafa neikvæð áhrif á umhverfið.

Segir mikilvægt að þétta byggð í sátt við náttúruna

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir tillögunni á fundinum í dag og sagði í ræðu sinni að mikilvægt væri að framkvæma umhverfismat með tilliti til þess rasks sem núverandi íbúar á svæðinu verða fyrir. Með framkvæmdunum á að sexfalda íbúafjöldann á svæðinu.

Á framkvæmdatímanum munu núverandi íbúar Skerjafjarðar verða fyrir feikilegu raski, átroðningi, hávaða- og umferðarmengun og umtalsverðri slysahættu, ekki síst á börnum, þar sem mörg þúsund flutningabílar með tengivagna verða stöðugt á ferðinni inn í íbúðahverfi,“ sagði Marta í ræðu sinni.

Þá ítrekaði hún að það væri vandkvæðum bundið að þétta byggð við eldri hverfi þannig að það sé gert í sátt við íbúana, náttúruna, yfirbragð eldri byggðar og í sátt við þá sögu og þau sérkenni sem mannlífið hefur þróað með sér á svæðinu yfir árabil.

„Í gær var það Bústaðahverfi og Fossvogur, í dag er það Skerjafjörður og á morgun verða það einhver önnur hverfi borgarinnar,“ sagði hún í lok ræðu sinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina