Nýr vefur ber saman verð í Bónus, Krónunni og Nettó

Nú verður hægt að bera saman verð í Bónus, Krónunni …
Nú verður hægt að bera saman verð í Bónus, Krónunni og Nettó á vefnum Verðgáttin. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Vefurinn Verðgáttin er nú kominn í loftið en vefsíðan gerir neytendum kleift að fylgjast með þróun verðlags helstu neysluvara í stærstu matsöluverslunum landsins. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Magnúsi Sigurbjörnssyni, forstöðumanni Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV). 

Verðgáttin er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda en á vefsíðunni er hægt að bera saman verð fyrir ýmsar neysluvörur í Bónus, Krónunni og Nettó. 

Neytendur bera saman matarkörfur

Á vefsíðunni er hægt að sjá vöruverð gærdagsins og verðsögu vörunnar. Þannig geta neytendur á einfaldan máta fylgst með verðlagsbreytingum í verslununum. Verð uppfærast einu sinni á sólarhring samhliða gagnaskilum frá verslunum. 

Neytendur geta sett upp sína eigin matarkörfu, með því að velja þær vörur og það magn sem hentar þeirra innkaupum. Þannig geta neytendur borið saman verð sinnar matarkörfu á milli verslana,“ segir í tilkynningunni.

Verkefnið kostar 10 milljónir

Menningar- og viðskiptaráðuneytið styrkti RSV um tíu milljónir króna til framkvæmdar verkefnisins en samningur þess efnis var gerður í febrúar á þessu ári. 

Gáttin er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði í desember þar sem kveðið er á um að veittur verði stuðningur til að auka aðhald á neytendamarkaði með því að bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þróun verðlags og skapa þannig hvata fyrir fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum,“ segir í tilkynningu Stjórnarráðsins í tilefni undirritun samningsins. 

Starfsemi RSV felst í að fylgjast með þróun og breytingum er varða verslun og neysluhegðun. 

mbl.is