Segir stjórnvöld slá hernaðarbumburnar

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, segir það vera misráðið að loka …
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, segir það vera misráðið að loka sendiráði Íslands í Rússlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, telur það vera skref í ranga átt að loka sendiráði Íslands í Moskvu. Hann segir það ali aðeins á óvild milli ríkja að slíta tengsl við Rússa.

„Ég tel þetta vera mjög misráðið og að við séum að ganga í gagnstæða átt við þá sem við ættum að stefna í. Íslendingar ættu að leggja sitt að mörkum til að stuðla að friði en ekki taka þátt í að berja hernaðarbumburnar eins og ríkisstjórn Íslands er farin að gera.“ segir Ögmundur í samtali við mbl.is.

„Dapurlegt að við séum að fara á þessa braut“

Ögmundur birti færslu á vefnum sínum í dag þar sem hann mótmælti byggingu nýs mannvirkis í Helguvík fyrir herskip Atlantshafsbandalagsins og að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að loka sendiráðinu í Moskvu.

„Ég er einfaldlega að mótmæla þeim skrefum sem íslenska ríkisstjórnin er að taka, annars vegar með vilyrðum um aukna hernaðaruppbyggingu og hins vegar að slíta þessi á þessi tengsl við Rússland,“ segir hann en honum finnst að Ísland eigi að stuðla að því að fulltrúar ríkja tali saman, frekar en að ala á misklið og óvild.

„Mér finnst þetta mjög óráðlegt og dapurlegt að við séum að fara á þessa braut.“

VG orðið „ein helsta klappstýra NATO“

Ögmundur gagnrýnir það að Vinstri grænir, flokkur sem hann átti mikinn þátt í að stofna, séu farnir þessa leið. Hann segir að flokkurinn sé orðinn allt annar en sá sem hann tók þátt í að stofna.

„Ég er búinn að sjá lengi hvert hefur stefnt hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Það að hún skuli gerast ein helsta klappstýra NATO er nokkuð sem ég hefði ekki viljað sjá og seint trúað að myndi gerast en það er því miður reyndin,“ segir Ögmundur.

„Þetta er annar flokkur en sá sem ég tók þátt í að stofna fyrir rúmum tveimur áratugum og auðvitað finnst mér það dapurlegt.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á leiðtogafundinum í Eldborg í Hörpu í …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á leiðtogafundinum í Eldborg í Hörpu í maí. mbl.is/Kristinn Magnússon

Friður ekki tryggður með manndrápum

Ögmundur segir að Íslendingar ættu að gera allt til þess að stuðla að því að fólk setjist að samningaborðum og ræðist við, „í stað þess að herða á vígbúnaði og hafa í heitingum hver við annan. Þar á rödd Íslands að vera“.

„Þetta mætti gera í margvíslegu formi og á margvíslegan hátt en það er í þessa átt sem ég vil að Íslendingar horfi– í átt til firðar, viðræðna og samninga,“ segir hann. „Það er ekki verið að gera heiminn tryggari með því að vígvæða hann enn betur, langt því frá.“

Það eru sumir sem vilja meina að við séum farin yfir þau mörk að geta átt í viðræðum. Ertu sem sagt ósammála því?

„Ég er algjörlega ósammála því. Það er uppgjöf að hugsa þann veg. Hvernig ætla menn að leysa þetta þá? Með sífellt stærri bombum? Með meiri manndrápum? Meiri óáran sem leidd er yfir þetta fólk? Það er ömurlegt að fólk sem er í þeirri fjarlægð sem við erum sé að hvetja til áframhaldandi mannfórna og drápa. Við eigum tala í gagnstæða átt og gera allt sem við getum til þess að stuðla að friði. Friður verður ekki tryggður með aukinni vígvæðingu og manndrápum.“

Rússneska þjóðin þarf að borga, ekki Pútín

Spurður um viðhorf sín til tjónaskrárnar sem stofnuð var á leiðtogafundi Evrópuráðsins í seinasta mánuði bendir Ögmundur á líkingu hennar við Versalasamninginn. Hann segir slíka skrá aðeins ala á óvild og að rússneska þjóðin komi til með að greiða skaðabæturnar, frekar en Pútín.

„Fyrirmyndin er þekkt, hún var fundin upp árið 1919 í Versölum í lok fyrra heimsstríðs og varð til þess að ala og framlengja óvild og hatur milli þjóða og varð síðan frjór jarðvegur til öfganasismann sem þreifst vel í slíkri mold,“ segir hann

„Ég hélt að menn hafi lært af reynslunni.“

„Hvað varðar stríðsskaðabætur er það mesti misskilningur sem hægt er að hugsa sér að það verði Pútín eða stjórnvöld í Rússlandi sem greiði þessar hugsanlegu stríðsskaða bætur. Það er þjóðin, rússneska þjóðin, sem kæmi til með að gera það.“

Ísland að gerast „handbendi vopnaframleiðenda“

„Þetta gagnast bara einum aðila, vopnaiðnaðinum. Það er hann sem er að baki þessarar þróunar allri saman. Það að menn skuli gagnrýnislaust láta leiða sig inn á þessa brautir að hálfu þeirra afla, það er ósköp dapurlegt,“ segir hann.

Hann segir að Ísland eigi að hætta að horfa alltaf til hagsmuna einstakra ríkja og frekar horfa til mannréttinda almennings hvar sem er í heiminum „og láta ekki stjórnast af handbendum vopnaiðnaðarins í heiminum“.

„Það er það sem við erum að gera núna. Það er það sem ætti að vera hverjum manni sýnilegt. Að við erum að gerast handbendi vopnaframleiðenda, sem vilja gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ala á hatri og úlfúð milli þjóða,“ segir Ögmundur að lokum.

mbl.is