Vextirnir rjúfa 10% múrinn

Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána bankanna þriggja hafa rofið 10% múrinn.
Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána bankanna þriggja hafa rofið 10% múrinn. Samsett mynd

Stóru viðskiptabankarnir þrír hafa allir hækkað vexti á húsnæðislánum í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabanka Íslands í maí þar sem stýrivextir voru hækkaðir um 1,25 prósentustig í 8,75%. Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána bankanna þriggja hafa þar með rofið 10% múrinn. Stýrivextir hafa nú hækkað átta sinnum á um einu ári og hafa farið upp um 5 prósentustig.

Þegar litið er til alls hækkunarferils Seðlabankans frá því í nóvember 2021 sést að Landsbankinn hefur oftast riðið á vaðið með hækkanir breytilegra vaxta í kjölfar stýrivaxtahækkana, en hinir bankarnir svo komið í kjölfarið. Þetta sýnir úttekt mbl.is á þróun vaxta undanfarið.

Íslandsbanki býður hæst og Landsbankinn lægst

Landsbankinn reið á vaðið 1. júní og hækkaði breytilega óverðtryggða vexti um 1,25% í 10,25% og fasta óverðtryggða vexti til þriggja ára um 0,5% í 9,25%.

Arion banki hækkaði breytilega óverðtryggða vexti í vikunni um 1,05% í 10,39% og fasta óverðtryggða vexti til þriggja ára um 0,1% í 9,3%.

Þá hækkaði Íslandsbanki breytilega óverðtryggða vexti um 1,25% í 10,5% í gær en fastir óverðtryggðir vextir til þriggja ára haldast óbreyttir hjá bankanum og standa í 9,35%.

 

Landsbankinn leiðir hækkanir

Að ofan má sjá fylgni vaxtahækkana á húsnæðislánum bankanna við vaxtaákvarðanir Seðlabankans síðastliðið ár. Á tímabilinu hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti um 5 prósentustig og bankarnir hafa á sama tíma hækkað breytilega vexti óverðtryggðra húsnæðislána um 4,8-4,85%.

Athyglisvert er að Landsbankinn hefur oftast leitt vaxtahækkanir bankanna á breytilegum óverðtryggðum vöxtum í kjölfar vaxtaákvarðana Seðlabankans síðan í nóvember árið 2021 eða sex sinnum ef marka má útgefnar dagsetningar vaxtaákvarðana bankanna.

Arion banki hefur þrisvar sinnum leitt vaxtahækkanir bankanna en Íslandsbanki hefur aðeins einu sinni leitt vaxtahækkanir í kjölfar vaxtaákvarðana Seðlabankans, í desember á síðasta ári, en í eitt skipti, í nóvember árið 2021, hækkuðu Landsbankinn og Íslandsbanki vexti, fyrstir bankanna þriggja, samdægurs.

Hægt er að skoða vaxtaþróunina nánar í meðfylgjandi gröfum, en vert er að benda á að hægt er að stækka gröfin með að láta þau fylla út í allan skjáinn. Ítarleg samanburðartafla mbl.is á vaxtahækkunum bankanna í kjölfar vaxtaákvarðana Seðlabanka er aðgengileg neðst í fréttinni.

mbl.is