Farsímasendar á kerrum og nýir settir upp fyrir helgina

Notkun farsímaþjónustu stóreykst um verslunarmannahelgina víða um land þar sem …
Notkun farsímaþjónustu stóreykst um verslunarmannahelgina víða um land þar sem fólk safnast fyrir. Meðal annars í Vestmannaeyjum á þjóðhátíð. mbl.is/Ari Páll

„Ef að eitthvað skyldi koma upp á, eins og ef að sendarnir myndu fyllast, þá getum við brugðist við með því að auka afköst. Í versta falli gætum við ræst út okkar fólk og brunað með kerrur, sem eru færanlegir farsímasendar, sem ég á ekki von á að þurfi,“ segir Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans, í samtali við mbl.is.

Til að mæta fjölgun fólks á landsbygðinni um verslunarmannahelgina hefur starfsfólk Símans farið víða í allt sumar og sett upp tugi nýrra senda og uppfært eldri. Nú þegar eru hátt í 130 5G sendar komnir í rekstur um land allt. Ásamt þessu segjast þau geta sett upp sérstakar kerrur sem auka afköst tímabundið, en það nýtist vel á stórviðburðum.

Í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar hefur Síminn bætt 5G samband í Eyjum, en ásamt því hefur 5G kerfi Símans verið eflt á Akureyri t.d. við Kjarnaskóg. 

Hver sendir þjónar nokkur hundruð upp í nokkur þúsund

Guðmundur segir að mikill fjöldi notenda hafi áhrif á gæði þeirrar þjónustu sem farsímakerfi geti veitt.

Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans, segir að Síminn muni gera það …
Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans, segir að Síminn muni gera það sem þurfi til að anna aukinni notkun um verslunarmannahelgina. mbl.is/Aðsent

„Þetta eru tímabundnar aðgerðir sem eiga að mæta vaxandi þjónustuþörf yfir verslunarmannahelgina. Við kortleggjum stærstu hátíðir, ásamt öðrum fjölförnum stöðum, og gerum það sem þarf að gera til að anna aukinni notkun.

Farsímakerfið virkar þannig að hver sendir ræður bara við ákveðið magn notenda og hraðinn dreifist á þá notendur. Því fleiri notendur sem eru á hverjum stað, því minna fá allir og þess vegna aukum við getuna til að tryggja sem besta upplifun.

Hver farsímasendir getur þjónað frá nokkuð hundruð notendum upp í nokkur þúsund, en það fer allt eftir notkun og umhverfi. Því fleiri sem eru að horfa á sjónvarpið yfir kerfið því færri, en ef það er mikið til hefðbundin notkun þá fleiri,“ segir Guðmundur.

Hægt að auka afköst ákveðinna senda

Að sögn Guðmundar eru helst tvær lausnir sem standa til boða ef farsímasendarnir koma til með að fyllast vegna mikillar notkunar.

„Við getum sett upp nýja senda eða mætt með kerrur. Síðan er líka hægt að auka tímabundið afköst ákveðinna senda. Við erum með stjórnstöð sem gegnir því hlutverki að vakta öll fjarskiptakerfin okkar, en hún mun sérstaklega vakta farsímakerfið yfir helgina.“

Segir hann jafnframt fólk á bakvakt til að bregðast við ef eitthvað kemur upp. „Ef að eitthvað skyldi koma upp á, eins og ef að sendarnir myndu fyllast, þá getum við brugðist við með því að auka afköst. Í versta falli þyrftum við að ræsa út fólk og bruna með kerrur, sem eru færanlegir farsímasendar,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert