Þjónusta felld niður hjá 53

Frá 1. júlí hafa 53 fengið tilkynningu um niðurfellingu á þjónustu í kjölfarið á því að hafa fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd hér.

Þetta kemur fram í tilkynningu ríkislögreglustjóra. Þar segir að af þeim hópi hafi tíu einstaklingar þegið styrk og farið sjálfviljugir af landi brott eða séu að undirbúa brottför með aðstoð stjórnvalda. Hjá 30 einstaklingum hafi þjónusta þegar verið felld niður, ýmist vegna þess að fresturinn var liðinn eða þeir hafi sjálfir farið úr þjónustu.

Embætti ríkislögreglustjóra hafi það hlutverk að framfylgja brottvísunum og flutningi fólks úr landi sem fengið hefur endanlega synjun um alþjóðlega vernd hér á landi. Frá og með 1. júlí hafi embættið jafnframt annast þjónustu við þennan hóp meðan á undirbúningi brottfarar hans stendur.

Í nýsamþykktum lögum um málefni útlendinga er ákvæði um að veita megi þessa þjónustu í að hámarki 30 daga eftir að synjun liggur fyrir. Nær alltaf er um að ræða mál sem bæði hafa fengið umfjöllun hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála.

Hægt að veita undanþágur

Veita má undanþágur í ákveðnum tilfellum, svo sem ef um er að ræða börn og fjölskyldur þeirra, barnshafandi konur, alvarlega veikt fólk eða fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá er lögreglu heimilt samkvæmt lögunum að fresta niðurfellingu á þjónustu sýni einstaklingur samstarfsvilja við að yfirgefa landið.

Í tilkynningu ríkislögreglustjóra er tekið fram að hluti þeirra sem fá endanlega synjun sé samstarfsfús og fái áframhaldandi þjónustu fram að brottför. Þá standi þeim til boða styrkur við kaup á flugmiðum og við að koma undir sig fótunum í móttökuríkinu.

Áréttað er að lögreglan hafi hvorki heimild til að veita þjónustu umfram 30 daga til þeirra sem ekki falli undir fyrrnefndar undanþágur né geti hún breytt niðurstöðu stjórnvalds í málum þeirra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert